Gígja Íslandsmeistari í 10 km skíðagöngu
Gígja Björnsdóttir úr Skíðafélagi Akureyrar varð Íslandsmeistari í 10 km skíðagöngu með frjálsri aðferð í dag, á öðrum keppnisdegi Skíðamóts Íslands í Hlíðarfjalli. Gígja, sem varð önnur í sprettgöngunni í gær, sigraði mjög sannfærandi í dag; var einni mínútu og 18 sekúndum á undan Lindu Rós Hannesdóttur frá Ísafirði, sem varð í öðru sæti. Linda Rós vann sprettgönguna í gær. Fanney Rún Stefánsdóttir frá Akureyri varð í þriðja sæti í dag.
Konurnar gengu 10 km eins og áður sagði en karlarnir 15 km. Einn keppandi var ræstur í einu, með 30 sekúndna millibili. Veðrið var frábært og aðstæður góðar en færið reyndar þungt sums staðar í brautinni, enda glampandi sól.
Snorri Einarsson úr Ulli var öruggur sigurvegari í karlaflokki og nældi þar með í önnur gullverðlaunin á jafn mörgum dögum.
Konur
1. Gígja Björnsdóttir, Skíðafélagi Akureyrar
2. Linda Rós Hannesdóttir, Skíðafélagi Ísafjarðar
3. Fanney Rún Stefánsdóttir, Skíðafélagi Akureyrar
Smellið hér til að sjá öll úrslit í kvennaflokki
Karlar
1. Snorri Einarsson, Ulli
2. Albert Jónsson, Skíðafélagi Ísafjarðar
3. Dagur Benediktsson, Skíðafélagi Ísafjarðar
Smellið hér til að sjá öll úrslit í karlaflokki
Þrjár fyrstu, Gígja Björnsdóttir, Linda Rós Hannesdóttir og Fanney Rún Stefánsdóttir.
Þrír fyrstu í karlaflokki, Snorri Einarsson, Albert Jónsson og Dagur Benediktsson.