Fara í efni
Íþróttir

Gífurleg vonbrigði eftir frábæra byrjun

Aron Hólm Kristjánsson, sem hér er í dauðafæri í leiknum, var markahæstur Þórsara í kvöld með 6 mörk. Arnór Þorri Þorsteinsson, til vinstri, gerði 5 mörk eins og Brynjar Hólm Grétarsson. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar töpuðu 26:22 fyrir Fjölni á heimavelli í kvöld í úrslitaeinvíginu um sæti í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta næsta vetur.

Með sigri hefðu Þórsarar tryggt sér sæti í Olísdeildinni en liðin hafa nú unnið tvo leiki hvort og úr því verður skorið í Fjölnishöllinni í Grafarvogi næsta fimmtudagskvöld hvort þeirra fer upp.

Þórsarar byrjuðu frábærlega í kvöld, gerðu fjögur fyrstu mörkin og eftir 13 mínútur var munurinn orðinn sjö mörk, 9:2. Þá hrökk allt í baklás hjá Þórsliðinu sem gerði aðeins tvö mörk fram að hálfleik en gestirnir átta. Staðan 11:10 fyrir Þór í hálfleik. Umskiptin voru með ólíkindum og vert að nefna að þrátt fyrir þessa þróun leiksins varði Kristján Páll markvörður Þórs 11 skot í fyrri hálfleik. Fór á kostum, sérstaklega framan af.

Fjölnir náði frumkvæði snemma í seinni hálfleik, munurinn var lengstum eitt til þrjú mörk en Þórsarar neituðu vitaskuld að játa sig sigraða og jöfnuðu 19:19 þegar 11 mín. voru eftir. Bjartsýnin lá í loftinu meðal á að giska 800 áhorfenda, en tæpum fimm mín. seinna voru gestirnir hins vegar komnir fjórum mörkum yfir, 23:19, og ljóst hvert stefndi. Þór gerði að vísu næstu tvö mörk en það dugði skammt. Fjölnismenn fögnuðu sanngjörnum sigri. 

Úrslitin eru gríðarleg vonbrigði fyrir Þórsara. Umgjörð leiksins var frábær, áhorfendur hafa ekki verið fleiri í mörg ár og stemningin gríðarlega góð. Eftir vonbrigði kvöldsins er aðeins eitt í stöðunni fyrir leikmenn Þórs; að taka sig saman í andlitinu, mæta jafn ákveðnir til leiks á fimmtudaginn og þeir gerðu í kvöld og halda sínu striki út leikinn! 

Mörk Þórs: Aron Hólm Kristjánsson 6, Arnór Þorri Þorsteinsson 5, Brynjar Hólm Grétarsson 5, Sigurður Ringsted Sigurðsson 2, Arnþór Gylfi Finnsson 1, Friðrik Svavarsson 1, Halldór Kristinn Harðarson 1, Þormar Sigurðsson 1.

Varin skot: Kristján Páll Steinsson 17 (39,5%).

Smellið hér til að sjá gang leiksins og alla tölfræði.

Langt er síðan jafn margir hafa verið viðstaddir handboltaleik í Höllinni. Mynd: Skapti Hallgrímsson