Íþróttir
Gervigras lagt á svæði Þórs næsta vor
13.06.2024 kl. 14:45
Mynd sem fylgdi samningnum sem bæjarráð Akureyrar samþykkti í morgun.
Bæjarráð Akureyrar samþykkti í morgun samning við Íþróttafélagið Þór um upphitaðan gervigrasvöll á svæði félagsins í Glerárhverfi.
Um er að ræða svæðið Ásinn austan við keppnisvöll félagsins. Þar verður knattspyrnuvöllur í fullri stærð, 105 x 68 m, flóðlýsing og 35 x 80 metra æfingasvæði. Gert er ráð fyrir þeim möguleika að 500 manna áhorfendastúka verði reist austan við völlinn en hún er ekki hluti af samningnum.
Verði samningurinn samþykktur á fundi bæjarstjórnar í næstu viku, sem gera má ráð fyrir að sé aðeins formsatriði, munu framkvæmdir hefjast í haust með jarðvegsskiptum og áætluð verklok eru eftir eitt ár, í júní 2025. Kostnaður við framkvæmdina er 700 milljónir króna.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi Framsóknar sat hjá við afgreiðslu málsins í bæjarráði í morgun en lét bóka:
Það er hafið yfir allan vafa að útiæfingaaðstaða fyrir yngri iðkendur knattspyrnu á Þórssvæðinu er óviðunandi og hægt að færa rök fyrir því að bregðast hefði átt við mun fyrr. Sit hjá undir málinu í dag og tek afstöðu á bæjarstjórnarfundi í næstu viku þegar tími hefur gefist til að rýna í gögn sem lágu ekki fyrir fyrir fundinn. Þ.e. hvað þessi framkvæmd þýðir fyrir framkvæmdaáætlun næstu ára og fjármögnun hennar.