Fyrsti heimaleikur Þórs fer fram í kvöld
Fyrsti heimaleikur karlaliðs Þórs í handbolta í vetur er á dagskrá í kvöld. Þórsarar voru hársbreidd frá því að komast upp í efstu deild í vor en leika áfram í þeirri næst efstu, Grill 66 deildinni. Það er B-lið Vals (Valur 2) sem kemur í heimsókn og flautað verður til leiks í Íþróttahöllinni kl. 18.00.
Sumarið var viðburðarríkt hjá Þórsurum því gamlir liðsmenn hafa snúið aftur heim og samið var á ný við lykilleikmenn. Búist er við Þórsurum mjög öflugum í vetur og spáðu þjálfarar og forráðamenn liðanna í deildinni Þórsurum efsta sætinu.
Höllin verður opnuð kl. 17.30 í dag og í tilkynningu frá handknattleiksdeild Þórs kemur fram að ársmiðar verða til sölu, svo og veitingar að vanda.
Einni umferð er lokið í Grill 66 deildinni. Þórsarar töpuðu með eins marks mun fyrir Víkingum í hörkuspennandi viðureign í Reykjavík og Valsmenn unnu lið HBH með sjö marka mun, 34:27, á heimavelli. HBH er nýstofnað lið í Vestmannaeyjum, Handknattleiksbandalag Heimaeyjar.
Komnir til Þórs
- Bergvin Þór Gíslason frá Aftureldingu
- Hafþór Már Vignisson frá ØIF Arendal
- Kristján Gunnþórsson frá KA
- Leó Friðriksson frá KA
- Oddur Gretarsson frá Balingen-Weilstetten
- Ólafur Atli Malmquist Hulduson frá Fjölni
- Þórður Tandri Ágústsson frá Stjörnunni