Fara í efni
Íþróttir

Fyrsti heimaleikur þægilegt verkefni

Einar Ernir Eiðsson og Patrekur Stefánsson, til hægri, reyndust Víkingsvörninni erfiðir í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA sigraði Víking næsta auðveldlega, 23:18, í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Olís-deildinni, í KA-heimilinu í kvöld.

KA-menn byrjuðu mun betur og komust í 4:1, Víkingar minnkuðu muninn í eitt mark, 5:4, en svo skriðu heimamenn hægt og rólega fram úr. Munurinn var þrjú mörk í hálfleik, 12:9, og varð mestur sex mörk um miðjan seinni hálfleik, 20:14.

Augljóst var frá byrjun hvert stefndi, KA-menn þurftu ekki að sýna neinar sparihliðar til að vinna en þessi fyrsti heimaleikur vetrarins var upplagður til að dusta af sér rykið eftir sólríkt sumar.

Patrekur Stefánsson gerði 7 mörk úr 8 skotum fyrir KA, og bjó að auki til þrjú færi. Einar Rafn Eiðsson gerði 6 mörk úr 13 skotum í fyrsta heimaleiknum með KA, þar af skoraði hann í öll þrjú skiptin sem hann tók víti. Þá skapaði Einar Rafn átta færi í leiknum. Nicholas Satchwell varði 16 skot af 34 – 47,1%.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.