Fara í efni
Íþróttir

Fyrsti heimaleikur KA/Þórs í rúman mánuð

Martha Hermannsdóttir, til hægri, hefur leikið afar vel í haust og Unnur Ómarsdóttir hefur líka verið öflug eftir að hún gekk til liðs við KA/Þór á ný í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs taka á móti HK á Íslandsmótinu í handbolta, Olís deildinni, í KA-heimilinu klukkan 15.00 í dag. Þetta er fyrsti heimaleikur Stelpnanna okkar síðan 25. september.

KA/Þór er með fjögur stig eftir þrjá leiki; liðið hefur unnið ÍBV og Stjörnuna á heimavelli en tapaði naumlega fyrir Fram syðra. Þá fór liðið frægðarför til Kósóvó, þar sem það sigraði KHF Istogu í tvígang í Evrópukeppninni.

HK hefur tvö stig að loknum fjórum leikjum; liðið tapaði heldur illa fyrir Haukum, Val og Fram en vann svo ÍBV örugglega á heimavelli á dögunum.

Óhætt er að segja að deildarleikir KA/Þórs hafi verið jafnir í vetur; stelpurnar unnu ÍBV með tveggja marka mun, unnu eins marks sigur á Stjörnunni og töpuðu með tveggja marka mun fyrir Fram.

KA/Þór hefur skorað 26 mörk að meðaltali í leik en fengið á sig 25,6 mörk að meðaltali! Jafnara gerist það varla.