Fara í efni
Íþróttir

Frumraun Þórs undir stjórn Alusovski

Þjálfarinn, Stevce Alusovski, ræðir við sína menn á æfingu í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsliðið í handbolta hefur í dag leik á Íslandsmótinu. Strákarnir, undir stjórn norður-makedónska þjálfarans Stevce Alusovski, leika í Grill 66 deildinni, neðri deild Íslandsmótsins, og taka á móti ungmennaliði Hauka í Höllinni klukkan 14.00.

Lið Þórs er í vetur aðallega skipað ungum og efnilegum leikmönnum og verður afar fróðlegt að sjá hvernig Alusovski nær að móta þann leir sem hann fékk í hendur. Það tekur án efa tíma en gæti orðið mjög spennandi að fylgjast með verkefninu.