Frítt á körfuboltann og hnefaleikar í hálfleik
Þór og Skallagrímur mætast í fyrsta leik úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta í íþrótthöllinni á Akureyri í kvöld. Ókeypis er á leikinn og í hálfleik býður hnefaleikadeild Þórs upp á sýningu.
Þórsarar urðu í 5. sæti 1. deildar eftir sérlega góðan endasprett; liðið vann sex leiki í röð, komst upp fyrir Skallagrím og fékk þar með í heimaleikjaréttinn gegn Borgfirðingum. Þór vann báðar viðureignir þessara liða í deildinni í vetur,10 stiga sigur í Borgarnesi í byrjun janúar, 77:67, og sjö stig sigur í lokaumferð deildarinnar í lok mars í Höllinni á Akureyri, 86:79.
- Leikurinn í kvöld hefst kl. 19.15. Aðgangur er ókeypis í Höllina því Bílaleiga Akureyrar - Höldur býður öllum á leikinn.
Sigra þarf í þremur leikjum til að komast í næstu umferð. Annar leikur Þórs og Skallagríms verður í Borgarnesi á þriðjudaginn 9. apríl og sá þriðji í Höllinni á Akureyri laugardaginn 13. apríl. Þann dag verður svokallaður tvíhöfði því fyrr um daginn mætir kvennalið Þórs liði Grindavíkur í átta liða úrslitum Subway-deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins.
- Bryddað verður upp á þeirri skemmtilegu nýjung í leikhléi í kvöld að tveir kappar úr hnefaleikadeild Þórs sýna listir sínar á gólfinu. Það eru þeir Elmar Freyr Aðalheiðarson, Íslandsmeistari í 92+ kg flokki sem kjörinn var íþróttakarl Þórs 2023, og Ágúst Davíðsson, sem er með gullmerki Hnefaleikasambands Íslands í diplóma hnefaleikum.