Fara í efni
Íþróttir

Framsýn hvataaðgerð, en fjárfestingar fyrir bí

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyri.net fjallaði í gær um bókun bæjarráðs og mótmæli hagaðila í siglingum skemmtiferðaskipa í kringum landið vegna áforma um að fella niður tollfrelsi skemmtiferðaskipa í hringsiglingum, svokallaðra leiðangursskipa, frá og með áramótum.

Í framhaldi af því mætti spyrja: Hvers vegna er þetta tollfrelsi til staðar og hvernig er ætlunin að framkvæma innheimtu gjalda frá áramótum?

Það var árið 2012 sem tollfrelsi var innleitt fyrir skemmtiferðaskip sem skráð eru erlendis og eru í innanlandssiglingum í allt að fjóra mánuði á hverju 12 mánaða tímabili. „Um framsýna hvataaðgerð var að ræða af hálfu stjórnvalda til þess að auka farþegaskipti, stuðla að dreifingu skipaumferðar á fleiri hafnir og reyna að lengja í dvöl þeirra við landið,“ segir í bréfi Cruice Iceland, CLIA og AECO til fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Bent er á að fyrir 20 árum, við stofnun Cruice Iceland, hafi margar minni hafnir tekið af skarið og hafið virka markaðssetningu á áfangastöðunum með tilheyrandi fjárfestingu. „Hringsiglingar á grunni tollfrelsis hófust svo síðar og gjörbreyttu rekstrarumhverfi minni hafna. Sú fjárfesting sem lagt hefur verið í fyrir minni hafnir er algjörlega fyrir bí ef tollfrelsið verður afnumið.“ Siglingar leiðangursskipa á grunni tollfrelsis hafi styrkt og eflt brothættar byggðir, til dæmis í Grímsey og Hrísey, eins og áður var nefnt.

Meðal afleiðinga sem bent er á er að skipafélög muni þurfa að fækka komum á vestur- og austurströnd landsins til að geta komið við stoppi erlendis, eða þá að hætta hringsiglingunum alfarið. Í mörgum höfnum geti tekjur af skemmtiferðaskipum skilið á milli þess hvort rekstur hafnanna er sjálfbær eða þurfi stuðning úr ríkissjóði. Hér sé um grafalvarlega aðgerð fyrir íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu, íslenska framleiðendur sem selja kost um borð í skipin og þjónustufyrirtæki á landsbyggðinni.

Engar upplýsingar um framkvæmd

Krafan um frestun afnámsins byggir meðal annars á því að löggjöf þurfi að vera framkvæmanleg áður en gjaldheimta hefst. Bréfritarar segja að ekki hafi tekist að fá upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu né heldur skattayfirvöldum um það hvað afnám tollfrelsis feli nákvæmlega í sér. Mögulega gætu stjórnvöld krafist virðisaukaskatts, tolls og áfengisgjalds frá og með 1. janúar á siglingum sem eru innan íslenskrar lögsögu frá byrjun til enda, hringsiglingum eða svokölluðum Íslandsferðum.

Jewel of the Sea við landfestar á Akureyri. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

„Engar upplýsingar liggja fyrir um framkvæmd og innheimtu en ekki þarf viðamikla þekkingu á fyrirkomulagi siglinga með ferðamenn til að átta sig á því að allt að ómögulegt er að framkvæma þessa gjaldtöku,“ segir í bréfinu og bent á að það sé meðal annars ein af ástæðum þess að sambærilegar ferðir séu ekki í boði í þeim nágrannalöndum sem ekki bjóða tollfrelsi. Um gríðarlegt skrifræði væri að ræða ef reyna ætti að telja vörur innan og utan landhelginnar og stöðva neyslu og þjónustu við ferðamenn á tilteknum tíma til að standa skil á þessum gjöldum. Skipin geti auk þess ekki siglt tóm af vörum til Íslands til að fylla þau hér því farþegar séu um borð.

„Fulltrúar hins opinbera sem ætlað er að framfylgja afnámi tollfrelsis (tollur og skattur) hafa heldur ekki getað upplýst skipafélögin um hvernig framkvæmdin er hugsuð,“ segir í bréfinu, og það þrátt fyrir að örfáir mánuðir séu þar til tollfrelsið verður afnumið. Miklar efasemdir eru um framkvæmd á afnámi tollfrelsisins því „skrifræðið er einfaldlega óyfirstíganlegt og að okkar mati útilokað,“ segja bréfritarar.

Ekki á móti einfaldri gjaldtöku

Cruice Iceland, CLIA og AECO segja mikilvægt að fram komi að samtökin og meðlimir þeirra séu ekki mótfallinn gjaldtöku á skemmtiferðaskip sem miðist við farþega þeirra. Skipafélögun séu almennt meðvituð um nauðsyn þess að tekjur af starfsemi þeirra dreifist sem víðast, meðal annars til afskekktari byggða sem njóti ekki hins almenna ferðamannastraums. Aftur á móti gera þessir sömu aðilar alvarlegar athugasemdir við fyrirvarann, hann sé alltof stuttur fyrir félög sem selja ferðir sínar tvö til þrjú ár fram í tímann og þyrftu því að taka tjónið á sig sjálf.