Fara í efni
Íþróttir

Frammistaða KA mikil vonbrigði – MYNDIR

Bjarni Aðalsteinsson kastar sér fyrir skot Gunnars Jónasar Haukssonar leikmanns Vestra í fyrri hálfleik. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA-menn hafa byrjað illa á Íslandsmótinu í knattspyrnu, Bestu deildinni. Eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag töpuðu þeir 1:0 á heimavelli fyrir nýliðum Vestra frá Ísafirði, sem hvorki höfðu skorað né fengið stig í deildinni. Þrír leikir eru þar með að baki hjá KA, allir á heimavelli, og aðeins eitt stig komið í safnið.

Lið KA stóð sig býsna vel í fyrstu tveimur leikjunum, gegn HK (1:1) og FH (2:3) þótt uppskerin væri rýr. Í dag náði liðið sér hins vegar engan vegin á strik. Þetta var lang slakasti leikurinn til þessa, hlutirnir gengu allt of hægt fyrir sig og nær engin hugmyndaauðgi var í sóknarleiknum. Gestirnir mættu aftur á móti grimmir til leiks, vörðust mjög vel og sköpuðu meiri hættu en KA-strákarnir. Þessi sögulegi sigur Vestra, sá fyrsti í efstu deild Íslandsmótsins, var því sanngjarn.

KA-menn sakna augljóslega Hallgríms Mars Steingrímssonar, sem hefur verið besti maður liðsins undanfarin ár og var stoðsendingakóngur deildarinnar í fyrra. Hann veiktist illa um daginn og verður frá enn um sinn. Þá fór Ásgeir fyrirliði Sigurgeirsson meiddur af velli eftir tæpan hálftíma í dag. Hann fékk högg á fótinn en ætti að verða klár í næsta leik. Framherjinn Viðar Örn Kjartansson kom inná sem varamaður í dag eins og í hinum leikjunum tveimur, nú þegar um 15 mínútur (og 5 mín. uppbótartími) var eftir; hann fékk tvö færi sem ekki nýttust en ljóst er að KA þarf á því að halda að þessi mikli markaskorari komi sér í nógu góða æfingu sem allra fyrst til að geta spilað meira.

KA fær ÍR í heimsókn í bikarkeppninni á fimmtudaginn en síðan verða þrír strembnir leikir í röð á dagskrá í deildinni: gegn Íslandsmeisturum Víkings á útivelli næsta sunnudag, gegn KR heima sunnudaginn 5. maí og gegn Val úti laugardaginn 11. maí.

Eftir þrjár umferðir er KA eitt þriggja neðstu liða með eitt stig, hin eru Fylkir og HK.

_ _ _

ANDRI RÚNAR ÓGNAR STRAX
Andri Rúnar Bjarnason, einn þeirra sem á markametið í efstu deild Íslandsmótsins – 19 mörk – gekk til liðs við Vestra í vetur og var í byrjunarliðinu í fyrsta skipti í dag. Ekki voru liðnar nema fimm mínútur þegar hann var nálægt því að skora. Hann fékk boltann í miðjum vítateignum eftir þvögu fyrir framan KA-markið en þrumaði rétt yfir markið. Hann er lengst til vinstri á myndinni, í þann mund að skjóta.


_ _ _

SVEINN MARGEIR SKÝTUR FRAMHJÁ
KA-menn ógnuðu marki Vestra ekki að neinu ráð fyrr en á síðustu mínútu fyrri hálfleiks en þá munaði líka litlu að ísinn væri brotinn. Sveinn Margeir Hauksson komst í mjög gott færi vinstra megin í teignum, eftir laglegt samspil við Elfar Árna Aðalsteinsson en skot Sveins smaug framhjá markstönginni fjær.


_ _ _

LÚMSKT SKOT VIÐARS
Framherjinn Viðar Örn Kjartansson kom inn á hjá KA á 73. mín. og aðeins þremur mín. síðar fékk hann færi til að gera fyrsta markið fyrir félagið.  Viðar náði boltanum á undan varnarmönnum Vestra rétt utan við markteiginn, var fljótur að átta sig og átti lúmskt skot en það var ekki fast og Karl Willum markvörður átti ekki í miklum vandræðum með að verja.


_ _ _

SIGURMARK VESTRA
Komið var fram í uppbótartíma þegar Vestri náði snöggri sókn, Benedikt V. Warén þrumaði á markið utan teigs en Jajalo varði með tilþrifum í KA-markinu. Boltann fór aftur fyrir endamörk, Vestri fékk því horn og eftir klafs í teignum var Jeppe Gertsen fyrstur að átta sig og skoraði með lúmsku, hnitmiðuðu skoti í fjærhornið. Þetta var fyrsta mark nýliða Vestra í Bestu deildinni enda fögnuðu þeir innilega.


_ _ _

LAUS SKALLI VIÐARS
Rétt áður en leiktíminn rann út ógnaði Viðar Örn Kjartansson aftur marki Vestra, eftir fyrirgjöf frá hægra skallaði framherjinn að marki en náði engum krafti og markvörðurinn varði auðveldlega.


_ _ _

SÖGULEGUR SIGUR
Vestramenn fögnuðu vel og lengi enda fyrsti sigur þeirra í efstu deild í höfn.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna