Framkvæmdum að ljúka í Skautahöllinni
Umfangsmiklar framkvæmdir við nýja félagsaðstöðu í Skautahöllinni eru á lokametrunum. Sagt er frá því á heimasíðu SA að vonir hafi staðið til að hin nýju rými yrðu komin í notkun í upphafi tímabilsins, en eins og oft vilji verða hafi orðið óhjákvæmilegar tafir á verkinu og því sé tekið með stóískri ró. Þessa dagana er verið að mála og vinna að hefjast við að setja upp húsbúnað í félagsaðstöðunni, auk tækja og tóla í líkamsræktar- og æfingaaðstöðunni.
Gangi allt að óskum gerir Skautafélagsfólk ráð fyrir að nýja aðstaðan verði komin í fulla nýtingu í lok mánaðarins.
Risaskjár sem vakið hefur athygli í hokkíleikjum skemmdist í rafmagnstruflunum í óveðri fyrir rúmu ári, en nú er von á nýjum skjá í húsið í hans stað.
Hér má sjá hvernig norðurendi Skautahallarinnar leit út áður en framkvæmdir hófust. Myndin er tekin vorið 2021 þegar kvennalið Skautafélags Akureyrar varð Íslandsmeistari 15. árið í röð. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson