Fara í efni
Íþróttir

Framarar sterkari á endasprettinum

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, ræðir við leikmenn sína. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs í handbolta urðu að játa sig sigraða í hörkuleik gegn Fram í dag í Reykjavík. Eftir að Stelpurnar okkar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11, reyndust Framarar sterkari og sigruðu með tvegga marka mun, 27:25.

Viðureignin var hnífjöfn framan af en frábær kafli KA/Þórs gjörbreytti stöðunni; hún fór úr 4:4 í 12:6; Akureyrarliðið gerði átta mörk gegn tveimur. Þá tóku Framarar mjög góðum kafla og munurinn var þrjú mörk í hálfleik sem fyrr segir.

Reykvíkingarnir komu afar grimmir út í seinni hálfleikinn og jöfnuðu fljótlega 15:15 en allt var í járnum lengi vel. Fram komst í fyrsta skipti yfir þegar rúmar 10 mínútur voru eftir, 21:20, en jafnt var á öllum tölum upp í 25:25. Heimamenn gerðu svo tvö síðustu mörkin.

„Þetta er mjög svekkjandi tap og ég er mjög svekktur. Við spiluðum frábæran fyrri hálfleik en mér fannst við eiga að vera betri í seinni hálfleik,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, við blaðamann Vísis eftir leik.

„Við áttum möguleika að komast fimm mörkum yfir undir lok fyrri hálfleiks en í staðinn minnkuðu þær muninn niður í þrjú mörk. Þeir byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og við vissum að þær kæmu með áhlaup. En við komum okkur aftur í gírinn og náðum ágætis stjórn á okkar leik,“ sagði Andri.

Smellið hér til að sjá magnaða umfjöllun á Vísi.

Mörk KA/Þórs: Aldís Ásta Heimisdóttir 6, Martha Hermannsdóttir 6 (2 víti), Rut Jónsdóttir 5 (2 víti), Hulda Bryndís Tryggvadóttir 3, Ásdís Guðmundsdóttir 3, Rakel Sara Elvarsdóttir 2.

Sunna Guðrún Pétursdóttir stóð sig vel í markinu í fjarveru Matea Lonac, sem fékk frí til að vera viðstödd brúðkaup systur sinnar í Króatíu.

Fram hefur nú 7 stig eftir 4 leiki, Valur 6 stig eftir 3, Haukar eru með 5 stig eftir 3 leiki og KA/Þór með 4 eftir 3 leiki. Næsti leikur KA/Þórs er við HK á heimavelli næsta laugardag.

Smellið hér til að sjá tölfræðina á vef HSÍ.