Frábær sigur Þór/KA gegn Breiðabliki
Þór/KA vann frábæran 2:0 sigur á Breiðabliki í fjórðu umferð Bestu deildar kvenna, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu í dag. Hulda Ósk Jónsdóttir og Sandra María Jessen gerðu mörk Þór/KA, eitt í hvorum hálfleik.
Leikurinn fór fram í Boganum vegna slæmra vallaraðstæðna á Þórsvelli en slæmt veður hefur verið á Akureyri í dag. Jafnræði var með liðunum framan af í leiknum. Blikar voru meira með boltann en heimakonur fengu hættulegri færi.
Hulda Ósk Jónsdóttir gerða fyrsta mark leiksins á 28. mínútu eftir góða skyndisókn Þór/KA. Sandra María Jessen fékk boltann og lyfti boltanum á Huldu sem kom sér í skotfæri og skoraði með góðu skoti. 1:0 var staðan í hálfleik.
Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn betur og voru mun meira með boltann. Þór/KA liðið varðist þó vel. En eftir því sem leið á leikinn þyngdist pressa Blikanna og fékk liðið fín færi til að jafna.
En í blá lok leiksins náði Kimberley Dóra boltanum og átti góðan sprett upp völlinn. Hún náði að koma boltanum inn fyrir á Söndru Maríu sem brást ekki bogalistin og skoraði og innsiglaði 2:0 sigur Þór/KA.
Eftir leikinn er Þór/KA liðið á toppi deildarinnar með 9 stig en Valsliðið sem er í öðru sæti á þó leik til góða.
Nánar á eftir