Frábær og langþráður sigur Þórsara
Þórsarar unnu langþráðan sigur í Norðurlandsslagnum gegn Tindastóli, 103:95, í Domino's deildinni í körfubolta í íþróttahöllinni á Akureyri í gærkvöldi. Þetta var fyrsti sigur Þórsara í deildinni í vetur; þeir hafa stundum verið nálægt sigri en tókst loks ætlunarverkið.
- Skorið í hverjum leikfjórðungi: 21:29 – 20:19 (41:48) – 36:22 – 26:25 (103:95)
Sauðkrækingar byrjuðu betur og voru átta stigum yfir eftir fyrsta leikhluta og sjö stigum yfir í hálfleik. Frábær þriðji leikhluti hjá Þórsurum sneri leiknum hins vegar þeim í hag og þá var eins og þeir öðluðust raunverulega trú á að sigur væri möguleiki. Þeir voru sjö stigum yfir fyrir síðasta fjórðung, 77:70, en gestirnir voru reyndar fljótir að jafna, 79:79. Þá hrukku heimamenn í gang á ný og unnu að lokum sannfærandi sigur. Liðsheildin var til fyrirmyndar hjá Þór að þessu sinni. Eftir að Ivan Aurrecoechea Alcolado fékk 3. villuna snemma í öðrum leikhluta og Andrius Globys höfuðhögg, og báðir urðu að setjast á bekkinn um tíma, tóku Ragnar Ágústsson og Hlynur Freyr Einarsson við stærra hlutverki en alla jafna og skiluðu því með sóma.
Skagfirðingurinn Ragnar var gríðarlega góður með Þór í leiknum. Hann lék í rúmar 32 mínútur, aðeins Srdan Stojanovic (sem fór aldrei út af!) og leikstjórnandinn Dedrick Deon Basile (38.36 mín af 40) léku lengur en hann. Ragnar var gríðarlega duglegur í vörn og skoraði 16 stig, auk þess að taka átta fráköst. Hann sagðist, í samtali við Vísi, ekkert hafa búið sig öðruvísi undir þennan leik en aðra. „Nei það er bara alltaf stemning að spila við gamla liðið sitt. Mér leið þannig allan tímann að við værum að fara að vinna þetta. Við misstum stóru mennina okkar út í öðrum leikhluta og við Hlynur vorum að spila í þeirra stöðum sem stórir menn. Við töpuðum frákastabaráttunni vissulega en við höfðum alltaf trúna og héldum áfram þannig að ég er mjög ánægður með sigurinn og liðið okkar,“ sagði sigurreifur Ragnar Ágústsson.
Srdjan Stojanovic gerði 26 stig fyrir Þór, tók 1 frákast og átti 2 stoðsendingar
Dedrick Deon Basile: 23 stig, 14 stoðsendingar, 2 fráköst.
Ivan Aurrecoechea: 23 stig, 10 fráköst
Andrius Globys: 10 stig, 8 fráköst, 4 stoðsendingar
Ragnar Ágústsson: 16 stig, 8 fráköst
Kolbeinn Fannar Gíslason: 3 stig
Smári Jónsson: 2 stig
Hlynur Freyr Einarsson: 1 frákast