Fara í efni
Íþróttir

Fótboltaleikur í ætt við borðtennis

Ragnheiður Sara Steindórsdóttir, til vinstri, og Bríet Fjóla Bjarnadóttir, Boganum í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Knattspyrnuakademía Norðurlands hefur keypt fyrsta fótboltaborðið til Akureyrar. Það verður í Boganum, aðgengilegt þeim sem þar æfa hverju sinni, meistaraflokkum og yngri iðkendum.

Þórólfur Sveinsson, eigandi og skólastjóri akademíunnar, segir borðið í raun þakklætisgjöf til knattspyrnumanna bæjarins fyrir góða þátttöku á námskeiðum undanfarin ár. „Mig langaði einfaldlega að gefa aðeins til baka,“ segir Þórólfur við Akureyri.net, „til þess að efla fótboltann í bænum enn frekar.“

Borðíþróttin, teqball, er eins konar blanda af fótbolta og borðtennis. Hún nýtur vaxandi vinsælda hér og þar um heiminn, keppt er bæði í einliða- og tvíliðaleik og fyrsta heimsmeistaramótið fór fram 2017.

Borðið var tekið í notkun í Boganum fyrir helgi og vakti strax mikla lukku, að sögn Þórólfs. Það er ekki ósvipað borðtennisborði nema sveigja er á því, borðið hæst í miðjunni og þar er ekki gegnsætt net heldur lágt skilrúm þannig að ekki sést yfir á hinn helming borðsins. Íþróttin krefst því mikillar leikni og útsjónarsemi.

„Þetta er fyrsta borðið í bænum, en þau hafa verið að ryðja sér til rúms á Íslandi. Fyrir sunnan byrjaði þetta af krafti í sumar og ég veit að mörg félög þar hafa keypt svona borð. Þetta er mjög góð leið til þess að æfa tækni, snerpu og móttöku,“ segir Þórólfur. KA-dagur var í Boganum í gær og tvær ungur stúlkur úr 5.flokki léku sér við borðið þegar Akureyri.net leit við. Höfðu þær greinilega gaman af, enda spurði önnur þeirra föður sinn, þegar haldið var heim á leið: Pabbi, eigum við ekki að fá okkur svona?

Leikurinn virðist geta hentað öllum vel; menn komnir af léttasta skeiði sem ef til vill eru ekki áhugasamir um að taka sprett fram kantinn í 11 manna fótbolta á stórum velli, gætu áreiðanlega verið frábærir við borðið. Þórólfur neitar að minnsta kosti ekki þeirri skynsamlegu kenningu!

Tóti akedemíustjóri hyggst halda mót í þessum skemmtilega leik 28. og 29. desember í Boganum, fyrir stráka og stelpur í 3., 4. og 5. aldursflokki. Skráning er á Instagram síðu Knattspyrnuakademíu Norðurlands.

Ragnheiður Sara Steindórsdóttir, til vinstri, og Bríet Fjóla Bjarnadóttir spreyta sig við fótboltaborðið í Boganum í gær.

Stutt myndskeið af strákum úr Boganum er hér