Fara í efni
Íþróttir

Föstudagsfjör og Þórsarar unnu

Þórsarar fagna fyrra marki þeirra sem Alvaro Montejo gerði úr víti í fyrri hálfleik. Frá vinstri: Liban Abdulahi, Jakob Snær Árnason, Alvaro, Sölvi Sverrisson og Bjarki Þór Viðarsson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Þór sigraði Aftureldingu 2:1 í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins, á heimavelli í kvöld. Alvaro Montejo gerði fyrra mark Þórs úr víti í fyrri hálfleik og Fannar Daði Malmquist kom liðinu í 2:0 snemma í þeim síðari. Aron Elí Sævarsson minnkaði muninn um miðjan seinni hálfleik.

Hlýtt var og bjart en sterk sunnanátt setti svip á leikinn. Þórsarar léku undan vindi í fyrri hálfleik, sóttu linnulítið og hefðu átt að gera fleiri mörk en eitt. Í seinni hálfleik snerist dæmið; Þórsarar bættu að vísu snemma við marki, sem átti eftir að reynast dýrmætt, en Mosfellingar sóttu mun meira og voru nálægt því að jafna.

Mikill hasar var í leiknum og allt ætlaði um koll að keyra undir lokin þegar gestirnir kröfðust þess að fá vítaspyrnu; töldu ein útileikmanna Þórs hafa varið  boltann með hendi í vítateignum en Sveinn Arnarsson dómari var ekki á sama máli. Svo fór að Ísak Atli Kristjánsson, leikmaður Aftureldingar, var rekinn af velli fyrir hörð mótmæli og að leikslokum sóttu gestirnir hart að dómaratríóinu. Það breytt þó engu, frekar en áður í knattspyrnusögunni. Útsendari Akureyri.net sá ekki hvað gerðist en miðað við viðbrögð sunnanmanna er varla loku fyrir það skotið að þeir hafi haft eitthvað til síns máls.

Þór er kominn með sex stig eftir fjóra leiki en Afturelding hefur fjögur.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Flautað til leiksloka! Birgir Ómar Hlynsson, Daði Freyr Arnarsson, Bjarki Þór Viðarsson, Tanis Marcellán, Sveinn Arnarsson dómari, Bjarni Guðjón Brynjólfsson, Kristófer Óskar Óskarsson og Ólafur Aron Pétursson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Fannar Daði Malmquist brosti breitt eftir að hann kom Þór í 2:0.

Sveinn dómari rekur Ísak Atla Kristjánsson af velli fyrir mótmæli undir lok leiksins.

Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir leik yfir því að hafa ekki fengið vítaspyrnu undir lokin.