Fögnuðu 50 ára afmæli íþróttafélagsins Akurs
Íþróttafélagið Akur varð 50 ára um síðustu helgi og því var vitaskuld fagnað með veglegum hætti.
Félagið var stofnað 7. desember 1974 að frumkvæði Magnúsar Ólafssonar sjúkraþjálfara Sjálfsbjargar á Bjargi og Jakobs Tryggvasonar starfsmanns á Bjargi, og var Stefán Árnason kjörinn fyrsti formaður þess. Félagið hét þá Íþróttafélag fatlaðra á Akureyri (ÍFA) en nafninu var breytt í Akur 1987.
Svo skemmtilega vildi til að á afmælisdaginn, fyrir sléttri viku, var haldin fjölsótt 80 ára afmælishátíð Íþróttabandalags Akureyrar í Boganum, en afmælisdagur ÍBA er 20. desember. Félagar í Akri hófu því daginn á afmælishátíð ÍBA þar sem þeir kynntu greinarnar stundaðar eru í Akri, boccia, bogfimi og borðtennis.
Borðtennis er ein þeirra greina sem stundaðar eru undir merkjum Akurs og var því kynnt á afmælishátíð ÍBA. Hér mundar Stefán Thorarensen borðtennisspaðann. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Síðar um daginn var síðan haldið afmælishóf Akurs í Ánni, sal Lionsklúbbsins Hængs, þar sem litið var yfir farinn veg og ýmissa góðra stunda og áfanga í 50 ára sögu félagsins minnst.
Félagið hefur staðið fyrir og unnið að ýmsum afmælistengdum verkefnum á árinu, m.a mótahaldi og endurnýjun búnaðar, og gerð var heimasíða Akurs – akursport.is – sem opnuð var formlega á afmælisdaginn.
Í tilefni tímamótanna veitti stjórn Akurs heiðurviðurkenningar til nokkura einstaklinga sem hafa unnið ötullega að framgangi félagsins.
Silfurmerki Akurs hlutu
- Izaar Þorsteinsson
- Hjálmar Árnason
- Jón Heiðar Árnason
- Jón Heiðar Daðason
Gullmerki Akurs hlutu
- Ólafur Magnússon
- Sigríður Þórunn Jósepsdóttir
Heiðursfélagi Akurs
Jósep Sigurjónsson, fyrrum formaður félagsins til áratuga, var gerður að heiðursfélaga Akurs og er hann sá fyrsti sem hlýtur þá nafnbót. „Eru honum færðar kærar þakkir fyrir hans óeigingjarna og ómetanlega framlags til félagsins,“ segir í tilkynningu frá Akri.
Jóhann Arnarson, varaformaður Íþróttasambands fatlaðra, og Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri sambandsins, mættu í afmælishófið og heiðruðu nokkra félaga í Akri. „Einnig færði ÍF félaginu nokkur bocciasett að gjöf sem munu nýtast félaginu og iðkendunum vel á næstu árum. Sendum við þeim bestu þakkir fyrir og hlökkum til samstarfsins áfram sem ávallt er ánægjulegt og gefandi.“
Þau hlutu viðurkenningar frá Akri. Aftari röð frá vinstri: Sigríður Þórunn Jósepsdóttir sem hlaut gullmerki Akurs, Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri ÍF (gullmerki Akurs), Jón Heiðar Daðason (silfurmerki Akurs), Jón Heiðar Árnason (silfurmarki Akurs), Izaar Þorsteinsson (silfurmerki Akurs) og Hjálmar Árnason (silfurmerki Akurs). Fyrir framan: Jón Heiðar Jónsson formaður Akurs og Jósep Sigurjónsson, sem gerður var að heiðursfélaga. Mynd: Þorgeir Baldursson
Heiðurskross Íþróttasambands fatlaðra
- Jósep Sigurjónsson
Gullmerki Íþróttasambands fatlaðra
- Sigríður Jósepsdóttir
- Elvar Thorarensen
- Jón Heiðar Daðason
- Ingi Bjarnar Guðmundsson
- Jón Heiðar Jónsson
Silfurmerki Íþróttasambands fatlaðra
- Hildur Haraldsdóttir
Í afmælishófinu steig Snæbjörn Sigurðarson, formaður Lionsklúbbsins Hængs, á stokk og færði Akri 500.000 krónur í afmælisgjöf.
„Það hefur alla tíð verið mikil tenging og afar farsælt samstarf milli Hængsmanna og Akurs. Hafa Hængsmenn lagt mjög mikið til starfsins í gegnum árin og verið miklir velgjörðarmenn og bakhjarlar í starfinu bæði með fjárframlögum og vinnuframlagi. Viljum við senda þeim bestu þakkir fyrir og hlökkum til frekara samstarfs um ókomna tíð,“ segir Jón Heiðar Jónsson, formaður Akurs. Hann segir stjórn og þjálfara Akurs líta björtum augum fram á veginn og hlakka til að vinna áfram að framgangi félagsins með öllu því góða fólki sem að því kemur.
Snæbjörn Sigurðarson, formaður Lionsklúbbsins Hængs, og Jón Heiðar Jónsson, formaður Akurs. Mynd: Þorgeir Baldursson
Jóhann Arnarson, varaformaður Íþróttasambands fatlaðra, og Jón Heiðar Jónsson, formaður Akurs. Mynd: Þorgeir Baldursson
Jóna Jónsdóttir formaður Íþróttabandalags Akureyrar færði félaginu gjöf og góðar hamingjuóskir í tilefni dagsins. Til vinstri er bogfimikappinn Alfreð Birgisson sem er meðstjórnandi í stjórn ÍBA. Mynd: Þorgeir Baldursson.