Fara í efni
Íþróttir

Fjörugir leikir síðustu ár – hvað gerist í dag?

Elfar Árni Aðalsteinsson KA-maður og Beitir Ólafsson, markvörður KR, eftir viðureign liðanna á Dalvík í fyrra. Elfar Árni skoraði en Beitir fagnaði sigri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA kemst upp í annað sæti Bestu deildarinnar í knattspyrnu, efstu deildar Íslandsmótsins, nái liðið að sigra KR í dag. Liðin mætast á nýja Greifavellinum á KA-svæðinu klukkan 18.00.

KA-menn hafa verið á góðu skriði og unnið þrjá síðustu leiki í deildinni en KR-ingar hafa hins vegar verið í vandræðum; þeir unnu síðast leik í deildinni 29. maí en hafa síðan gert fjögur jafntefli og tapað tvívegis.

KA er í þriðja sæti með 27 stig að loknum 14 leikjum. Íslandsmeistarar Víkings eru með 29 stig en leik þeirra í umferðinni er frestað vegna  þátttöku liðsins í Evrópukeppni. Breiðablik er lang efst með 38 stig að loknum 15 leikjum. Lið KR er í sjöunda sæti með 18 stig úr 14 leikjum.

Óhætt er að segja að leikir liðanna hafi verið fjörugir og viðburðaríkir síðan KA hóf að leika í deild þeirra bestu á ný 2017.

2017Elfar Árni Aðalsteinsson gerði bæði mörk KA þegar KR vann leik liðanna á Akureyrarvelli 3:2. Daninn Kennie Choppart gerði gerði þá eitt marka KR. Ekkert var skorað í leik liðanna í Reykjavík.

2018 Choppart skoraði í báðum viðureignum liðanna þetta sumar; eina markið í 1:0 sigri KR á Akureyrarvelli og annað í 2:0 sigri Reykjavíkurliðsins á heimavelli. 

2019Choppart var rekinn út af í 1:0 sigri KR á KA í Reykjavík sumarið 2019. Leikurinn á Akureyri fór 0:0.

2020 – Liðin gerðu markalaust jafntefli á Akureyri þar sem Beitir Ólafsson markvörður bjargaði KR-ingum í uppbótartíma. KA fékk víti en Beitir varði spyrnu Guðmundar Steins Hafsteinssonar. Liðin mættust ekki í Reykjavík þetta sumar; mótinu hafði verið aflýst vegna Covid þegar sá leikur var á dagskrá.

2021 – KA-menn unnu frækinn 3:1 sigur á KR í Reykjavík þar sem Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði tvö mörk og Brynjar Ingi Bjarnason eitt. KR-ingar unnu hins vegar seinni leikinn sem fram fór á Dalvík, 2:1, þrátt fyrir að hafa verið manni færri frá 22. mínútu þegar Kristján Flóki Finnbogason var rekinn út af. Enn skoraði Elfar Árni Aðalsteinsson en Kjartan Henry Finnbogason og Pálmi Rafn Pálmason, fyrrverandi leikmaður KA, gerðu mörk KR.

Fyrri leikur liðanna í sumar var markalaus. Oleksiy Bykov, varnarmaður KA (sem nú er horfinn á braut), var þá rekinn af velli eftir rúmlega hálftíma leik. Arnar þjálfari Grétarsson fékk einnig að líta rauða spjaldið í leiknum. Sjá hér: KA náði í „gott“ stig í miklum mótvindi