Íþróttir
Fjölmargt í boði í íþróttaviku Evrópu
24.09.2024 kl. 11:30
Íþróttavika Evrópu stendur nú yfir og hófst formlega í gær og stendur fram á mánudaginn 30. september. Fjölmargir viðburðir verða í boði á Akureyri í samstarfi Íþróttabandalags Akureyrar og aðildarfélaga þess. Frítt er á alla viðburðina.
- Dagskrá vikunnar (pdf)
Akureyringum býðst að prófa hinar ýmsu íþróttagreinar á vegum nokkurra af aðildarfélögum ÍBA. Einnig er vert að vekja athygli á fyrirlestri um næringu ungs íþróttafólks í boði ÍBA, Akureyrarbæjar, ÍSÍ og Háskólans á Akureyri sem er lokapunktur vikunnar og verður haldinn mánudaginn 30. september. Fyrirlesturinn verður haldinn í Háskólanum á Akureyri. Fyrirlestrinum er skipt í tvennt, annars vegar ætlað íþróttaiðkendum, 13 ára og eldri, og hins vegar foredlrum. Fyrirlesari er Birna Varðardóttir, en hún hefur rannsakað næringarástand íþróttafólks og tengdar áskoranir. Birna er í doktorsnámi, er með BS-gráðu í næringarfræði og MS-gráðu í íþróttanæringarfræði og hreyfivísindum.
- Kl. 16:20-17:20 - Farið yfir næringu og þarfir ungs fólks, sérstaklega ætlað iðkendum 13 ára og eldri.
- Kl. 17:30-18:30 - Ætlað foreldrum, farið yfir hagnýt ráð og verkfæri til að styðja sem best við heilsu og árangur barna og ungmenna
Almennt eru Akureyringar einnig hvattir sérstaklega til að hjóla eða ganga til vinnu og til og frá skóla í tilefni af íþróttavikunni, þó sú hvatning eigi auðvitað við allan ársins hring þegar það á við og aðstæður leyfa.
Árlegur viðburður í yfir 30 löndum Evrópu
Íþróttavika Evrópu er haldin vikuna 23.-30. september ár hvert í yfir 30 Evrópulöndum. Markmiðið er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu og sporna við hreyfingarleysi meðal almennings. Verkefnið og viðburðir vikunnar eru ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi.
Sjá nánar á vef Íþróttabandalags Akureyrar.