Fara í efni
Íþróttir

Ferna hjá Þór/KA – fleiri skora en Sandra

Þór/KA er áfram á góðri siglingu í Bestu deildinni eftir að hafa tapað fyrsta leik mótsins og síðan unnið fjóra leiki í röð. Liðið hefur skorað í öllum leikjum, tvisvar unnið 4-0 sigra og er með markatöluna 13-5. Myndir: Þórir Tryggva.

Þór/KA vann Keflavík með fjórum mörkum gegn engu í fimmtu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Fleiri en Sandra María taka nú til við markaskorun hjá liðinu.

Aðeins eitt mark var skorað í fyrri hálfleik, en það gerði Sandra María Jessen með skalla eftir frábæran undirbúning á hægri kantinum og fyrirgjöf frá Huldu Ósk Jónsdóttur. Sandra María þurfti að hafa nokkuð fyrir því að ná skallanum því litlu munaði að sendingin væri of há. En boltinn endaði í netinu og níunda mark Söndru í fimm leikjum staðreynd. Markinu að sjálfsögðu vel fagnað og engu líkara en að Sandra María sé að senda Ísfold Marý Sigtryggsdóttur orku fyrir annað mark liðsins. Góð stemning og leikgleði einkennir lið Þórs/KA þessa dagana enda eiga þær alveg innistæðu fyrir því að vera ánægðar.

Þrjú mörk frá Þór/KA á um þrettán mínútna kafla í seinni hálfleiknum gerðu svo út um vonir gestanna um að jafna leikinn. Mörkin hefðu hæglega getað orðið fleiri en Vera Varis varði vel og kom í veg fyrir stærri sigur. Shelby Money stóð einnig fyrir sínu í markinu hjá Þór/KA og varði meðal annars mjög vel með góðu úthlaupi þegar Elfa Karen Magnúsdóttir komst ein inn fyrir vörnina hjá Þór/KA. 

Ísfold Marý Sigtryggsdóttir skoraði annan leikinn í röð þegar hún kom Þór/KA í 2-0 með hnitmiðuðu langskoti á 58. mínútu. Hún er því áfram næstmarkahæst í liðinu eins og hún benti á í viðtali eftir að hún skoraði í sigrinum á Víkingi í fjórðu umferðinni.

Margrét Árnadóttir bætti þriðja markinu við þegar hún fylgdi eftir skoti frá Karen Maríu Sigurgeirsdóttur aðeins þremur mínútum eftir að Ísfold kom Þór/KA í 2-0. Þetta er fyrsta mark Margrétar í Bestu deildinni þetta árið og hún þar sú þriðja sem skorar fyrir liðið í deildinni það sem af er sumri.

Karen María skoraði svo sjálf fjórða markið þegar hún fékk boltann frá varnarmanni Keflavíkur, átti skot að marki sem Vera Varis varði, en Karen María fékk boltann aftur, kom sér í betri stöðu og skoraði. 

Þegar upp var staðið var sigurinn öruggur þó svo Keflvíkingar hafi átt sína spretti og stundum verið nálægt því að jafna í stöðunni 1-0. Þetta var fjórði sigurleikurinn í röð hjá Þór/KA sem hefur nú náð Breiðabliki að stigum, bæði með 12 stig, en Blikar eiga leik til góða, mæta Fylki í Árbænum á miðvikudagskvöld. Sandra María er langmarkahæst í deildinni, nú komin með níu mörk í fimm leikjum og samtals 98 mörk í efstu deild á Íslandi.

Smellið hér til að skoða leikskýrsluna.