Fengu dýrmæta reynslu á Ólympíuhátíðinni
Fimm Akureyringar kepptu á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar (The European Youth Olympic Festival, EYOF), íþróttahátíð fyrir evrópsk ungmenni á aldrinum 14-18 ára, sem lauk um síðustu helgi. Allt voru það stúlkur, Sonja Lí Kristinsdóttir, Birta Vilhjálmsdóttir, Alís Helga Daðadóttir og Júlietta Iðunn Tómasdóttir úr Skíðafélagi Akureyrar og Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir úr Skautafélagi Akureyrar.
Hátíðin er haldin á oddatöluári bæði vetrar og sumarhátíð og fór að þessu sinni fram í Friuli Venezia Guila á Ítalíu. Íþróttagreinar eru tíu á hvorri hátíð fyrir sig.
Hátíðin hefur verið mikilvæg fyrir ungt íþróttafólk álfunnar í gegnum tíðina. Margir af fyrri keppendum á hátíðinni hafa síðar náð alla leið á efsta getustigi í sínum greinum, segir á vef Íþrótta- og ólympíusambands Íslands. Fyrsta hátíðin var haldin í Brussel 1991 og hét þá Ólympíudagar æskunnar.
- Gaman er að geta þess að Sonja Lí Kristinsdóttir frá Akureyri, keppandi í alpagreinum, var fánaberi Íslands á setningarhátíðinni ásamt skíðagöngumanninum Fróða Hymer. Á lokahátíðinni var annar Akureyringur fánaberi, listskautakonan Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, ásamt skíðamanninum Bjarna Þór Haukssyni.
- Á fyrsta keppnisdegi hátíðarinnar var m.a. keppt á snjóbrettum þar sem Júlíetta Iðunn Tómasdóttir, Alís Helga Daðadóttir, Ari Eyland Gíslason og Reynar Hlynsson tóku þátt í Big Air keppni. Í þeirri keppni framkvæma keppendur tvö stökk á stórum stökkpalli og hærri einkunnin gildir.
„Keppnisaðstæður voru með besta móti og pallarnir góðir. Þrátt fyrir að okkar keppendur hafi ekki öll náð að lenda sínum bestu stökkum voru þau ánægð með þá dýrmætu reynslu og upplifun sem dagurinn færði þeim,“ segir á vef Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ).
- Í 7,5 km skíðagöngu með hefðbundinni aðferð náði Birta María Vilhjálmsdóttir 58. sæti á tímanum 31:19.40 mín. og Sigríður Dóra Guðmundsdóttir 62. sæti á tímanum 37:50.90.
- Sömu stúlkur tóku þátt í 5 km skíðagöngu með frjálsri aðferð. Birta María Vilhjálmsdóttir fór kílómetrana fimm á tímanum 17:32.07 sem skilaði henni í 59. sæti. Sigríður Dóra hafnaði í 63. sæti og var á tímanum 20:23.0.
- Í brekkustíl á snjóbrettum átti Ísland þrjá fulltrúa, þar af var einn Akureyringur. Öll áttu góðan dag í brekkunni. Reynar Hlynsson fékk 44.0 í einkunn og hafnaði í 15. sæti. Ari Eyland Gíslason fékk einkunnina 32.8 og náði 18. sæti. Júlíetta Iðunn Tómasdóttir hlaut einkunnina 20.0 og endaði hún keppni dagsins í 14. sæti.
- Þær Sonja Lí Kristinsdóttir, Esther Ösp Birkisdóttir, Eyrún Erla Gestsdóttir og Þórdís Helga Grétarsdóttir voru fulltrúar Íslands í svigi stúlkna. Stúlkunnar stóðu sig vel og skiluðu sér allar í mark í báðum ferðum. Esther Ösp náði besta tíma íslensku stúlknanna og hafnaði í 30. sæti, Eyrún Erla endaði í 31. sæti, Sonja Lí Kristinsdóttir í 37. sæti og Þórdís Helga Grétarsdóttir í 39. sæti en alls 88 keppendur voru á ráslista.
- Freydís Jóna Jing Bergsveindóttir listskautakona hafnaði í 28. sæti og fékk einkunnina 25.05 í stuttu prógrammi. Hún skautaði glæsilega, segir á vef ÍSÍ.
- Í langa prógramminu hlaut Freydís Jóna einkunnina 51.66 eftir að hún „framkvæmdi prógrammið af miklum sóma“ eins og segir á vef ÍSÍ. Þegar einkunnir hennar fyrir stutta og langa prógrammið voru lagðar saman hlaut hún 76.5 í einkunn fyrir mótið og hafnaði í 27. sæti.
- Fjórar íslenskar stúlkur kepptu í stórsvigi. Eyrún Erla Gestsdóttir varð í 36. sæti, sem var besti árangur þeirra. Esther Ösp Birkisdóttir hafnaði í 38. sæti og Þórdís Helga Grétarsdóttir í 43. sæti og bættu þær allar stöðu sína á heimslista. Sonju Lí Kristinsdóttur hlekktist á í fyrri ferðinni og náði ekki að ljúka keppni.
- Í sprettgöngu varð Birta María Vilhjálmsdóttir í 59. sæti og Sigríður Dóra Guðmundsdóttir í 62. sæti. Í drengjaflokki var Fróði Hymer hársbreidd frá því að tryggja sig inn í fjórðungsúrslit þegar hann hafnaði í 34. sæti í undanrásum en 30 efstu keppendurnir komast áfram í fjórðungsúrslit. Ástmar Helgi Kristinsson hafnaði í 41. sæti og Grétar Smári Samúelsson í 54. sæti.
- Í 4x5 km blandaðri boðgöngu varð sveit Íslands í 17. sæti. Sveitina skipuðu Fróði Hymer, Birta María Vilhjálmsdóttir, Ástmar Helgi Kristinsson og Sigríður Dóra Guðmundsdóttir. Tími sveitarinnar var 1:04:05.8 klst.
Skíðagöngukapparnir Fróði Hymer, Grétar Smári Samúelsson og Ástmar Helgi Kristinsson kepptu í 10 km hefðbundinni skíðagöngu. Fróði Hymer náði bestum tíma Íslendinganna en hann kom í mark á tímanum 30:00.01 sem skilaði honum í 35. sæti. Grétar Smári endaði í 54. sæti á tímanum 34:09.90 og Ástmar Helgi Kristinsson í 56. sæti á tímanum 34:54.30.
Bjarni Þór Hauksson, Matthías Kristinsson, Stefán Gíslason og Torfi Jóhann Sveinsson tóku þátt í svigi drengja, en alls voru 100 keppendur á ráslista. Eftir mikla snjókomu síðustu daga var snjórinn mjúkur og aðstæður í fjallinu erfiðar.
Matthías Kristinsson átti stórgóða fyrri ferð og sat í 4. sæti eftir fyrri ferðina. Aðstæður í seinni ferðinni voru mjög erfiðar og eftir mikla baráttu í brautinni náði Matthías 8. sæti. Bjarni Þór Hauksson átti einnig góðan dag og endaði hann í 9. sæti. Stefán Gíslason endaði í 64. sæti. Torfi Jóhann Sveinsson byrjaði fyrri ferðina af krafti og skíðaði vel en hlekktist á í miðri braut og náði ekki að klára fyrri ferðina.
Gleðin var einnig við völd á skíðagöngusvæðinu í Sappada þar sem 66 drengir tóku þátt í 7,5 km skauti. Íslensku keppendurnir voru þeir Ástmar Helgi Kristinsson, Fróði Hymer og Grétar Smári Samúelsson. Fróði Hymer átti góða göngu og náði 19. sæti á tímanum 19:13.5 sem er besti árangur Íslendings á EYOF frá upphafi. Ástmar Helgi fór brautina á tímanum 22:28.7 sem skilaði honum 58. sæti. Grétar Smári hafnaði í 63. sæti á tímanum 23:24.6.
Í stórsvigi drengja kepptu fjórir Íslendingar. Bjarni Þór Hauksson átti mjög góðan dag í brekkunni í dag og varð í 10. sæti. Bjarni Þór átti gríðarlega góðu gengi að fagna á hátíðinni en hann var einnig meðal 10 efstu í svigkeppninni, sem fyrr segir. Matthías Kristinsson hafnaði í 34. sæti, Stefán Gíslason í 55. sæti og Torfi Jóhann Sveinsson í 56. sæti.
Þrír Íslendingar kepptu í risasvigi, grein sem nánast ekkert er stunduð hér á landi: í drengjaflokki náði Matthías Kristinsson 38. sæti og Stefán Gíslason 60. sæti. Esther Ösp Birkisdóttir hafnaði í 49. sæti í stúlknaflokki.
Auk keppendanna voru á Ólympíuhátíðinni Akureyringarnar Fjalar Úlfarsson, þjálfari í alpagreinum, og Dagbjartur Gunnar Halldórsson, flokksstjóri.
Sonja Lí Kristinsdóttir og Fróði Hymer, fánaberar Íslands á setningarhátíðinni á Ítalíu.