Farið að grænka á KA-svæðinu!
Vinna hófst í morgun við að leggja gervigras á knattspyrnuvöllinn sunnan við KA-heimilið. Spáð er heldur köldu veðri næstu daga og því ekki ljóst hvenær hægt verður að fara af fullum krafti í að klára verkið en nokkra daga tekur að leggja allt „teppið“, líma og ganga frá. Hitastig skiptir líka máli varðandi undarlagið.
Leikir KA í Bestu deildinni í knattspyrnu munu fara fram á nýja vellinum þegar allt verður klárt, en eftir að grasið verður komið á sinn stað verður sett upp stúka við völlinn. Að sögn Sævars Péturssonar, framkvæmdastjóra KA, verður fyrsti heimaleikurinn í Bestu deildinni á svæðinu líklega 16. júní þegar Framarar koma í heimsókn.
KA-menn taka á móti FH-ingum á Dalvíkurvelli í kvöld klukkan 19.15 í Bestu deildinni, þeir leika síðan við ÍA á Akranesi næsta sunnudag, fá Stjörnuna í heimsókn 21. maí, mæta Íslandsmeisturum Víkings í Reykjavík 29. maí og síðan koma Framarar norður.