Fara í efni
Íþróttir

Fannar í markinu í fyrsta sinn síðan 2016

Fannar Hafsteinsson og serbneski miðvörðurinn Petar Planic. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór sigraði Magna frá Grenivík 3:0 í Boganum í kvöld, í 1. umferð bikarkeppninnar í knattspyrnu – Mjólkurbikarkeppninni. Sölvi Sverrisson gerði fyrsta markið um miðjan fyrri hálfleik, Fannar Daði Malmquist Gíslason skoraði á annarri mínútu seinni hálfleiks og Aðalgeir Axelsson gerði þriðja markið á lokamínútu leiksins.

Athygli vakti að Fannar Hafsteinsson stóð í marki Þórs í kvöld. Þessi fyrrverandi unglingalandsliðsmaður úr KA lagði hanskana ungur á hilluna; hann hefur ekki tekið þátt í leik í tæp fimm ár, síðan sumarið 2016, en er þó einungis 25 ára.

Aron Birkir Stefánsson, aðalmarkvörður Þórs síðustu ár, fór í aðgerð á dögunum vegna meiðsla í hné og verður frá í að minnsta kosti þrjá mánuði. Svo gæti farið að hann missti af öllu tímabilinu.

Gert var ráð fyrir að hinn bráðefnilegi Auðunn Ingi Valtýsson, sem er aðeins 18 ára, tæki sæti Arons Birkis en ekki vildi betur til en svo að hann skarst á höfði á æfingu í vikunni og þurfti að sauma nokkur spor. Þórsarar reikna þó með að hann verði tilbúinn í fyrsta leik Íslandsmótsins, gegn Gróttu næsta föstudag. Verði hann ekki leikfær verður Fannar á milli stanganna. Þótt hann sé ekki í mikilli leikæfingu er Fannar í fantaformi enda hefur hann stundað Crossfit af miklum móð síðustu ár.