Fall er vonandi fararheill fyrir KA/Þór
Íslandsmeistarar KA/Þórs í handbolta töpuðu fyrir Fram í Meistarakeppni HSÍ í KA-heimilinu í dag, 28:21. Óhætt er að segja að Stelpurnar okkar hafi ekki náð sér á strik; að vísu var staðan jöfn eftir fyrri hálfleikinn, 11:11, en frammistaða þeirra var afleit nánast allan seinni hálfleikinn, þegar Framarar gerðu 17 mörk en KA/Þór aðeins 10.
Rut Jónsdóttir kom KA/Þór í 12:11 með fyrsta marki seinni hálfleiks og Rakel Sara Elvarsdóttir kom Íslandsmeisturunum síðan í 13:12, en á næstu 12 mínútum gerðu Framarar átta mörk í röð! Staðan var orðin 20:13 og úrslitin því sem næst ráðin þegar Martha Hermannsdóttir gerði 14. mark heimaliðsins úr vítakasti. Þá var seinni hálfleikurinn að vísu bara hálfnaður en vonlaust verkefni að sigra, svo vel léku Framararnir – og svo langt voru Íslandsmeistararnir frá því sínu besta.
Fram er því Meistari meistaranna í kvennaflokki 2021.
Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.
Hafdís Renötudóttir og Sigurður Hjörtur Þrastarson dómari huga að Aldísi Ástu Heimisdóttur.
Rakel Sara Elvarsdóttir skorar með því að vippa yfir Hafdísi í marki Fram. Markvörðurinn reyndist Íslandsmeisturunum óþægur ljár í þúfu.
Meistarar meistaranna - lið Fram eftir sigurinn í dag.