Fara í efni
Íþróttir

Eyrarskokkarar góðir á Laugaveginum

Þorbergur Ingi Jónsson og Rannveig Oddsdóttir, Eyrarskokkarar frá Akureyri, urðu í öðru sæti í Laugavegshlaupinu sem fór fram á laugardaginn. Brautarmet Rannveigar frá því í fyrra var slegið en met Þorbergs í karlaflokki stendur enn.

Laugavegurinn er ein allra vinsælasta gönguleiðin um hálendi Íslands og með eindæmum falleg í góðu veðri, en þessi 55 km leið tengir saman náttúruperlurnar Landmannalaugar og Þórsmörk. Hlaupið fór nú fram í 25. skipti og þátt tóku 227 konur og 380 karlar.

Rúmlega þrjátíu Eyrarskokkarar tóku þátt í hlaupinu að þessu sinni við góðar aðstæður; veður var bjart og fallegt en nokkur mótvindur á seinni hluta leiðarinnar. Helst var að sumum þætti heldur heitt þegar á leið!

Þorbergur Ingi var annar karlanna í mark á rúmum fjórum og hálfum klukkutíma, 4:32,02 en sigurvegari varð Bretinn Andrew Douglas á 4:10:36. Báðir voru þeir nokkuð frá brautarmeti Þorbergs sem er 3:59:13. Þorbergur lenti í magavandræðum og átti erfitt með að nærast á leiðinni, sem dró verulega af honum.

Rannveig var önnur kvenna í mark á 5:09:55 á eftir Andreu Kolbeinsdóttur sem bætti brautarmet Rannveigar frá í fyrra um tæpar fimm mínútur þegar hún hljóp á 4:55:49.

Nokkrir Eyrarskokkarar náðu á verðlaunapall í sínum aldursflokki. Rannveig sigraði í aldursflokki 40-49 ára kvenna, Þorbergur Ingi var annar í aldursflokki 30-39 ára karla, Hulda Elma Eysteinsdóttir var þriðja í flokki 30-39 ára kvenna og Ingibjörg Hanna Jónsdóttir og Jónína Sveinbjörnsdóttir voru í fyrsta og öðru sæti í flokki 60-69 ára kvenna.