Fara í efni
Íþróttir

Evrópumeistararnir keppa á Akureyri

Hópfimleikamót verður haldið hjá Fimleikafélagi Akureyrar næstkomandi laugardag, 26. mars, í íþróttamiðstöð Giljaskóla. Von er á besta hópfimleikafólki landsins á mótið; meðal þátttakenda eru m.a. nýkrýndir Evrópumeistarar kvenna í hópfimleikum og því má gera ráð fyrir frábærri sýningu.

Óhætt er að taka undir það sem segir í tilkynningu frá Fimleikafélagi Akureyrar; hér er um að ræða einstakt tækifæri fyrir Akureyringa og nærsveitamenn til að sjá besta fimleikafólk landsins og ástæða til að hvetja sem flesta til að mæta.

Mótið er fyrir annan, fyrsta og meistaraflokk. Keppnin er í tveimur hlutum. Fyrri hlutinn hefst kl. 12:40 og seinni hlutinn kl. 16:00.

Aðgangseyrir er 2000 kr. fyrir 16 ára og eldri.