Eva Wium og Baldur Örn valin þau mikilvægustu
Baldur Örn Jóhannesson og Eva Wium Elíasdóttir voru valin mikilvægustu leikmenn meistaraflokka Þórs í körfubolta á nýliðnu tímabili. Þá voru þau Emma Karólína Snæbjarnardóttir og Arngrímur Friðrik Alfreðsson valin efnilegustu leikmenn meistaraflokka. Þetta kemur fram á heimasíðu Þórs.
„Þá fengu þau Hrefna Ottósdóttir og Kolbeinn Fannar Gíslason viðurkenningu en þau náðu þeim áfanga í vetur að spila 100 meistaraflokksleiki fyrir Þór. Fá þau boli merkta með nafni og tölunni 100 þessu til staðfestingar. Því miður átti Kolbeinn Fannar ekki heimangengt og gat ekki tekið við bolunum en hann munn skila sér rétta leið áður en langt um líður.“
Kvennaliðinu gekk frábærlega í vetur og leikur í efstu deild næsta vetur. „Það er vissulega tilefni til að fagna enda 45 ár frá því að kvennalið Þórs lék meðal þeirra bestu,“ segir á heimasíðu Þórs.
Daníel Andri Halldórsson þjálfari kvennaliðs Þórs, Emma Karólína Snæbjarnardóttir efnilegust og Eva Wium Elíasdóttir mikilvægasti leikmaður meistaraflokks kvenna.
Óskar Þór Þorsteinsson þjálfari karlaliðs Þórs, Arngrímur Friðrik Alfreðsson efnilegasti leikmaður Þórs og Baldur Örn Jóhannesson mikilvægasti leikmaður meistaraflokks karla.
Hrefna Ottósdóttir náði þeim áfanga að rjúfa 100 leikja múrinn með meistaraflokki Þórs í vetur.