Fara í efni
Íþróttir

Eva Wium góð á NM – Þór semur við Rebekku

Eva Wium Elíasdóttir í leik með Þór gegn Tindastóli í 1. deildinni í vetur. Til varnar er Eva Rún Dagsdóttir, en hún er einnig í U20 landsliðshópnum. Ljósmynd: Páll Jóhannesson.

Eva Wium Elíasdóttir, leikstjórnandi körfuknattleiksliðs Þórs, stóð sig frábærlega með U20 landsliði Íslands sem sigraði Noreg á Norðurlandamótinu í gær. Þetta kemur fram á heimasíðu Þórs.

Ísland vann Noreg eftir framlengingu, 84-74. Staðan var 74-74 eftir fjórða leikhluta, en Ísland vann framlenginguna 10-0.

Eva skoraði 15 stig, næstflest hjá íslenska liðinu, var með frábæra skotnýtingu, eða 75% í heildina, tók fimm fráköst og átti þrjár stoðsendingaar. Þá var hún langhæst í íslenska liðinu í +/- tölfræðinni með 27 punkta. Eva spilaði rúmar 24 mínútur í leiknum.

Þess má geta að annar Þórsari, Marín Lind Ágústsdóttir, er í landsliðshópnum en kom lítið við sögu í gær. Hún er í háskólanámi í Bandaríkjunum, en er á samningi hjá Þór.

Rebekka Hólm til Þórs

Þá er greint frá því í dag á vef Þórs að körfuknattleiksdeild hefur samið við Rebekku Hólm Halldórsdóttur um að leika með liði Þórs næsta vetur. Liðið leikur þá sem kunnugt er í efstu deild Íslandsmótsins á ný, Subway-deildinni, eftir langa fjarveru.

Rebekka Hólm Halldórsdóttir (2005) kemur til Þórs frá Tindastóli. Rebekka er bakvörður, 180 sm að hæð, og spilaði tæpar 20 mínútur í leik með Tindastóli í 1. deildinni á síðastliðnu tímabili. 

Nánar hér um leikmannahóp Þórs næsta vetur.