Ekki útlit fyrir að Aron verði með Þór í sumar

Ekki eru líkur á að knattspyrnumaðurinn Aron Einar Gunnarsson leiki með Þór í sumar. Þetta kemur fram í viðtali við landsliðsmanninn á fótboltavef Íslands, fótbolta.net.
Arnar Gunnlaugsson valdi Aron Einar í fyrsta landsliðshóp sinn í síðustu viku en liðið býr sig nú undir leik gegn Kosóvó í Þjóðadeildinni á morgun. Íslendingar hafa æft síðustu daga á Spáni, á morgun verður leikið í Pristina, höfuðborg Kosóvó, en þjóðirnar mætast aftur á sunnudaginn; það verður heimaleikur Íslands en fer fram í Murcia á Spáni.
Aron, sem er 35 ára, er hjá Al-Gharafa í Katar en er ekki skráður í leikmannahóp liðsins í katörsku deildinni, vegna útlendingakvóta, en hefur spilað með liðinu í Meistaradeild Asíu. Í viðtali við fótbolta.net vonast hann eftir því að fá áframhaldandi samning úti og er ekki á áætlun hans að spila á Íslandi í sumar.
Stefnir að undankeppni HM
„Við sjáum hvernig staðan þróast. Ég skynja að það sé verið að breyta reglum í Katar og fjölga erlendum leikmönnum. Leiðinlega staðan núna er að geta ekki spilað í deildinni vegna útlendingakvóta en spila í Meistaradeild Asíu. Þeir ætla vonandi að breyta reglunum því það eykur mína möguleika. Ég stefni á að vera áfram úti, ég ætla ekki heim í sumar," segir Aron við fótbolta.net.
Fram kemur að Aron stefni að því að spila með landsliðinu í undankeppni HM sem hefst í haust „og gerir sér grein fyrir því að þá þurfi hann að spila í sem hæsta styrkleika. Hann lék með uppeldisfélagi sínu Þór í fyrra en áætlun hans er ekki að spila fyrir félagið á komandi tímabili,“ segir í fréttinni.
„Eins og staðan er í dag er það ekki planið. Það getur breyst eins og allt annað,“ segir Aron spurður hvort hann hyggist klæðast Þórstreyjunni í sumar.
Ekki með fyrirliðabandið
Fram kom þegar landsliðshópurinn var valinn að Aron Einar yrði ekki áfram fyrirliði, eins og hann hefur verið meira og minna síðan 2012. Nýr fyrirliði er framherjinn Orri Steinn Óskarsson hinn tvítugi framherji Real Sociedad á Spáni. Landsliðsþjálfarinn sagði Aron ekki þurfa fyrirliðabandið til að vera áfram í hlutverki leiðtogi og leikmaðurinn kveðst sáttur við breytinguna.
„Ég var alveg hlynntur þessari ákvörðun frá byrjun. Ég er á svæðinu til að miðla af minni reynslu og mér finnst það góð þróun. Alveg sama hvað Orri er gamall, hann er jarðbundinn strákur sem á framtíðina fyrir sér sem fyrirliði Íslands. Ég held að hann eigi eftir að standa sig fáránlega vel í því,“ segir Aron í viðtalinu.
Fram kemur að Aron sé valinn í hópinn að þessu sinni sem varnarmaður og verður að líkindum í byrjunarliðinu sem miðvörður á morgun.
Viðtalið á fotbolti.net: Ekki á áætlun Arons að spila á Íslandi í sumar