Fara í efni
Íþróttir

„Ekki hægt án fjölskyldunnar“

Samvera að loknum styrktarhjólatúrnum fyrir Hafdísi og Silju. Myndin er af Facebook-síðu Akureyrardætra.

Hafdís Sigurðardóttir hefur keppni á HM í hjólreiðum á morgun þegar hún tekur þátt í tímatökukeppni þar sem hjólaður er 36 kílómetra hringur um Stirling í Skotlandi. Silja Jóhannesdóttir heldur utan í dag og báðar taka þátt í gríðarlega krefjandi götuhjólreiðakeppni á sunnudaginn.

Það er aðeins meira en að smella fingri að stunda einstaklingsíþrótt og vera afrekskona í íþróttinni. Mikill tími fer í æfingar og keppnir, kostnaðurinn er mikill og keppendur eins og Hafdís og Silja leggja mikið á sig til að geta stundað sína íþrótt á því stigi sem þær gera.

Hafdís segir þurfa gríðarlega mikla ástríðu fyrir íþróttinni til að stunda hana því í raun geri hún allt sjálf í kringum æfingar og keppni, en hún nýtur mikils stuðnings frá fjölskyldu og vinum. „Ég væri ekki í þessu nema hafa þau öll með mér í liði,“ segir Hafdís.

Mikið umstang og mikill kostnaður

Kostnaðurinn við þátttökuna í HM er mismikill á milli keppenda enda dvalartími þeirra ytra mislangur. Hafdís keppir í tveimur greinum, tímatöku á fimmtudag og götuhjólreiðum á sunnudag, og er nú þegar komin út, en Silja fer út á morgun og keppir ásamt Hafdísi í götuhjólreiðunum. Umstangið og kostnaðurinn einskorðast auðvitað ekki við HM. Keppendur utan af landi taka aukadag í að ferðast með sinn búnað til Keflavíkur áður en flogið er út, svo dæmi sé tekið. „Þú hringir ekkert í vinkonu þína og færð hana til að skutla þér út á flugvöll með allan þennan búnað,“ segir Hafdís og vísar þar til þess að til dæmis í þessari ferð er hún með tvö reiðhjól með sér, eitt fyrir hvora keppnisgrein, og mikinn búnað og farangur sem tilheyrir þátttöku í svona keppni.

Hjólreiðasamband Íslands er lítið sérsamband sem nýtur ekki mikilla styrkja frá ÍSÍ. Sambandið borgar hluta af kostnaði og sér um að útvega aðstoðarfólk á meðan á mótinu stendur. 

Stuðningurinn ómetanlegur

Hafdís hefur notið þess að hafa Greifann sem sinn aðalstyrktaraðila ásamt Útisporti þar sem hún fær allan sinn búnað og segir það gríðarlega mikilvægt. Stuðningur ættingja og vina gerir henni líka kleift að stunda íþróttina. Fjölskyldan stendur þétt við bakið á henni, eiginmaðurinn og börnin og stórfjölskyldan. Sumarfríið fer í hjólreiðarnar, en Hafdís segist munu ná fjórum góðum dögum í sumarfríi með börnunum þegar hún kemur heim frá þátttökunni í HM.


Hluti af þeim hópi sem tók þátt í samhjóli Akureyrardætra til styrktar Hafdísi og Silju. Myndin er af Facebook-síðu Akureyrardætra.

Í lok júlí stóð félagsskapurinn Akureyrardætur, hópur hjólreiðakvenna, fyrir styrktarsamhjóli til fjáröflunar upp í kostnað þeirra Hafdísar og Silju vegna þátttökunnar á HM. Þar söfnuðust 200 þúsund krónur og Akureyrardætur bættu sjálfar við 50 þúsund krónum og afraksturinn því 125 þúsund handa hvorri þeirra, auk þess sem Sprettur-Inn bætti einnig við 50 þúsund krónum.

Er sjálf ein af Akureyrardætrum

Hafdís átti raunar sjálf þátt í að stofna hópinn Akureyrardætur ásamt Freydísi Hebu Konráðsdóttur þegar þær fóru með tíu kvenna lið og tóku þátt í WOW Cyclothon 2018. Þaðan er að minnsta kosti nafnið komið og hópurinn orðinn að félagsskap kvenna sem stunda hjólreiðar saman. Móðir Hafdísar, Þórdís Rósa Sigurðardóttir, er ein af Akureyrardætrum og á fullu í hjólreiðunum eins og dóttirin. Stuðningur Akureyrardætra kemur sér vel.


Upphafið hjá Akureyrardætrum, þátttaka í WOW Cyclothon 2018. Freydís Heba, sem stofnaði hópinn ásamt Hafdísi, er aftast fyrir miðju, Hafdís er öftust til vinstri og móðir hennar, Þórdís Rósa Sigurðardóttir, fremst fyrir miðju. Myndin er af Facebook-síðu hópsins.

„Mamma er gríðarlegur stuðningsmaður,“ segir Hafdís. „Það er ótrúlega dýrmætt að Akureyrardætur leggi okkur lið. Það skiptir allt máli í þessu sambandi.“ Hafdís segir líka að það væri ekki hægt að stunda svona íþrótt á því stigi sem hún gerir nema með stuðningi og þátttöku fjölskyldunnar.

Akureyrardætur urðu til sem keppnislið fyrir WOW Cyclothon-hjólreiðakeppnina 2018, en þegar séð varð fram á að ekki yrði framhald á henni fann hópurinn sér nýjan farveg og það er sú umgjörð sem er um hópinn í dag. Akureyrardætur er því hópur til að efla konur í hjólreiðum með það að markmiði að efla heilsuna. Þórdís Rósa segir hópinn standa fyrir ýmsum hjólaviðburðum, til dæmis að fara saman út að hjóla þar sem allar konur geta mætt og haft gaman. Hópurinn lætur einnig gott af sér leiða með styrktarsamhjólatúrum þar sem öllum er boðið að taka þátt. Undanfarin tvö ár hefur hópurinn safnað og gefið til Hjartaverndar á Norðurlandi, en í ár var ákveðið að styðja við bakið á landsliðskonunum tveimur, þeim Hafdísi og Silju. 


Akureyrardætur eru í bland áhugakonur og keppniskonur í hjólreiðum. Fram undan er Stelpugleði Greifans 24. ágúst. Myndin er af Facebook-síðu Akureyrardætra.

Gleðikeppni Akureyrardætra

Hópurinn hefur staðið fyrir gleðikeppnum þar sem lögð er áhersla á að hjóla og hafa gaman, en um leið að hvetja konur itl að ögra sjálfum sér og efla sig á hjólinu. Akureyrardætur eru með kvennaráð sem heldur utan um og skipuleggur viðburði hópsins, og á næstunni er einmitt á döfinni hjólagleði sem hópurinn heldur í fjórða sinn fimmtudaginn 24. ágúst undir heitinu Stelpugleði Greifans þar sem þær hvetja allar konur á öllum tegundum hjóla til að koma og taka þátt. Hjólagleðin verður byrjendavænni að þessu sinni en hefur verið í fyrri skipti og er tilvalið fyrir vinkvennahópa, vinnustaði, saumaklúbba og aðra hópa að mæta og hjóla saman og njóta í gleði, eins og Þórdís Rósa orðar það. Ofan á hjólagleðina eru svo þátttöku verðlaun, veitingar og fjöldi góðra útdráttarverðlauna. 

Hjólað saman til styrktar HM-förunum. Þórdís Rósa, móðir Hafdísar, er önnur frá vinstri. Myndin er af Facebook-síðu Akureyrardætra.

Akureyrardætur eru þannig ekki aðeins að styrkja landsliðskonurnar með framlagi fyrir þátttökuna á HM sem nú stendur yfir heldur einnig hópur sem samanstendur bæði af áhugafólki og konum sem taka þátt í hinum ýmsu keppnum. Til að mynda taka nokkrar úr upprunalega keppnisliði Akureyrardætra nú þátt í mótaröðum á vegum Hjólreiðasambands Íslands.