Fara í efni
Íþróttir

Eins stigs sigur og fimm í röð hjá Þór

Reynir Bjarkan Róbertsson var atkvæðamestur Þórsara í gær, skoraði 28 stig, tók fjögur fráköst og átti fjórar stoðsendingar. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar unnu sinn fimmta sigur í röð í 1. deild karla í körfuknattleik eftir æsispennandi lokamínútur í leik liðsins gegn Breiðabliki í gærkvöld. Áfram eiga þeir í harðri keppni við Fjölni um 5. sæti deildarinnar og orðið mjög líklegt að þessi lið mætist í fyrstu umferð umspils um sæti í efstu deild. 

Breiðablik hafði frumkvæðið framan af leik í gærkvöld, en gott áhlaup í 2. leikhluta skilaði 11 stiga forystu Þórs um tíma, sem Blikar náðu þó að minnka niður í fjögur stig fyrir lok fyrri hálfleiks. Aftur náðu Þórsarar góðu áhlaupi, munurinn orðinn 12 stig um miðjan þriðja leikhluta.

Blikar gáfust ekki upp heldur minnkuðu muninn jafnt og þétt og náðu svo loks að jafna í 87-87 þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir. Þeir komust svo yfir með þriggja stiga körfu, 87-90. Lokamínúturnar voru darraðadans fram og til baka, villur og vítaskot og allt sem fylgir.

Þórsarar komust aftur yfir og náðu að halda út þrátt fyrir æsilega baráttu á lokamínútunni. Staðan var 96-92, Blikar minnkuðu muninn í eitt stig með þriggja stiga körfu þegar tvær sekúndur voru eftir og náðu ekki að vinna boltann aftur eftir að Þórsarar hófu leik.

Eins stig sigur eftir æsispennandi lokasekúndur og Þórsarar áfram í 5. sæti deildarinnar.

  • KV - Þór - Breiðablik (22-23) (28-23) 50-46 (23-23) (23-26) 96-95 
    Tölfræði leiksins
    Staðan í deildinni

  • Reynir Bjarkan Róbertsson 28 - 4 - 4 - 31 framlagsstig
  • Tim Dalger 24 - 8 - 3
  • Smári Jónsson 13 - 4 - 2
  • Andrius Globys 8 - 10 - 4
  • Orri Már Svavarsson 7 - 4 - 2
  • Andri Már Jóhannesson 7 - 3 - 1
  • Veigar Örn Svavarsson 6 - 0 - 3
  • Páll Nóel Hjálmarsson 3 - 0 - 0

Þór er sem fyrr í 5. sæti deildarinnar og enn í harðri samkeppni við Fjölni. Bæði lið hafa unnið 11 leiki af 19. Fyrir ofan eru Hamar og Sindri með 13 sigra og fyrir neðan er Breiðablik með átta sigra. Þrjár umferðir eru eftir og því afar líklegt að Þór og Fjölnir endi í 5. og 6. sætinu og mætist í fyrstu umferð umspils um laust sæti í efstu deild. Efsta liðið fer beint upp og liðin í 2.-9. sæti fara í umspilið.

Leikir sem Þór og Fjölnir eiga eftir: 

  • Þór: Hamar (ú), Fjölnir (h), Ármann (ú).
  • Fjölnir: ÍA (h), Þór (ú), Skallagrímur (ú)

Eins og sjá má eiga Þórsarar erfiða leiki eftir, tvo gegn liðum í toppbaráttunni og svo heimaleik gegn Fjölni. Fjölnir á eftir að mæta efsta og neðsta liði deildarinnar, auk þess að sækja Þórsara heim.