Fara í efni
Íþróttir

Eins marks tap og KA ekki í úrslitakeppnina

Bjarni Ófeigur Valdimarsson og aðrir KA-menn voru að vonum mjög vonsviknir eftir leikinn gegn FH í kvöld. Þessi öflugi leikmaður, sem gekk til liðs við KA fyrir leiktíðina, hefur verið töluvert frá vegna meiðsla sem veikti liðið mikið. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Von KA-manna um sæti í átta liða úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta varð að engu í kvöld. Þeir urðu að bíta í það súra epli að tapa með minnsta mun, 26:25, fyrir Íslandsmeisturum FH á heimavelli í næst síðustu umferð Olísdeildarinnar.

KA varð að vinna tvo síðustu leikina til að eiga möguleika á áttunda sætinu.

FH náði frumkvæðinu í upphafi leiks en KA náði síðan að snúa dæminu við og hafði þriggja marka forystu um miðbik fyrri hálfleiks, 9:6. Þá tók við undarlegur fjögurra mínútna kafli þar sem hvorugt liðið skoraði en að honum loknum voru gestirnir fyrri til að hrista af sér slenið og höfðu tveggja marka forskot í hálfleik, 13:11.

Dagur Árni Heimisson, sem brýst hér í gegnum FH-vörnina, var markahæstur KA-manna í kvöld.

Það blés ekki byrlega fyrir KA-menn fyrri hluta seinni hálfleiks. Þeim voru mjög mislagðar hendur, Íslandsmeistararnir léku hins vegar af nokkuð eðlilegri getu og juku muninn jafnt og þétt; KA skoraði ekki í rúmlega átta mínútur á meðan gestirnir úr Hafnarfirði gerðu fimm mörk; þegar seinni hálfleikurinn var tæplega hálfnaður var munurinn orðinn sjö mörk. Staðan þá 21:14 fyrir FH.

Þrátt fyrir að staðan væri orðin erfið gegn sterkum andstæðingi neituðu KA-menn að játa sig sigraða, náðu að berja í brestana og með mikilli baráttu drógu þeir hægt en örugglega á gestina og þegar um 40 sekúndur voru eftir jafnaði Einar Birgir Stefánsson með marki af línunni. Stemningin var mögnuð í húsinu á því augnabliki og spennan mikil, því alkunna var að jafntefli var ekki nóg. Sigur var nauðsynlegur, en það var Jóhannes Berg Andrason sem slökkti vonarneista KA-manna þegar hann gerði sigurmark FH þremur sekúndum fyrir leikslok.

Einar Birgir Stefánsson gerir síðasta mark KA í kvöld. Hann vippaði yfir Daníel Frey Andrason markvörð og jafnaði, 25:25, þegar 45 sekúndur voru eftir.

Mörk KA: Dagur Árni Heimisson 7, Einar Rafn Eiðsson 5 (3 víti), Logi Gautason 4, Ott Varik 3, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 2, Einar Birgir Stefánsson 1, Jóhann Geir Sævarsson 1, Jens Bragi Bergþórsson 1, Daði Jónsson 1.

Varin skot: Nicolai Horntvedt Kristensen 11 (39,3%), Bruno Bernat 2 (20%).

Mörk FH: Jóhannes Berg Andrason 8, Ásbjörn Friðriksson 7, Garðar Ingi Sindrason 3, Gunnar Kári Bragason 2, Leonharð Þorgeir Harðarson 2, Einar Sverrisson 2, Jakob Martin Ásgeirsson 1, Birgir Már Birgisson 1.

Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 11, 31,4%.

Öll tölfræðin

Staðan í deildinni

Lokaumferðin fer fram á miðvikudag í næstu viku. KA leikur þá í Reykjavík gegn Fjölni sem þegar er fallinn úr deildinni.