Fara í efni
Íþróttir

Einar glímukóngur og Kristín glímudrottning

Einar Eyþórsson og Kristín Embla Guðjónsdóttir - glímukóngur og glímudrottning Íslands með verðlaunagripi sína í íþróttahúsi Glerárskóla í gær. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Einar Eyþórsson úr ungmennafélaginu Mývetningi hlaut sæmdarheitið glímukóngur Íslands í fyrsta skipti í gær og Kristín Embla Guðjónsdóttir úr Val á Reyðarfirði (UÍA) varð glímudrottning þriðja sinni, þegar Íslandsglíman fór fram í 112. skipti. Glímt var í íþróttahúsi Glerárskóla á Akureyri. Enginn Akureyringur var skráður til leiks enda hefur íþróttin ekki verið stunduð í bænum árum saman.

Fyrst var keppt um Grettisbeltið, elsta og verðmætasta verðlaunagrip íslenskra íþrótta, árið 1906 á Akureyri, í húsi góðtemplara sem þá var í smíðum; húsið þekkja landsmenn nú sem Samkomuhúsið, þar sem Leikfélag Akureyrar hefur alla tíð verið til húsa. Fyrst var keppt um Freyjumenið árið 2000.

Einar Eyþórsson og Hákon Gunnarsson glíma í íþróttahúsi Glerárskóla í gær.

Í fótspor föður og bróður

Ljóst var fyrir mótið að nýtt nafn bættist á Grettisbeltið að þessu sinni því enginn þeirra sex karla sem þátt tóku hafði orðið glímukóngur. Það var Einar Eyþórsson sem varð hlutskarpastur sem fyrr segir. Hann og Hákon Gunnarsson úr Val á Reyðarfirði (UÍA) voru jafnir að stigum þegar allir höfðu glímt við alla og þurftu því að eigast við aftur. Glímdu þeir til þrautar og stóð glíman í hartnær 5 mínútur.

Langþráður draumur rættist þegar Ásthildur Sturludóttir girti Einar glímukóng Grettisbeltinu í gær. „Ég er búinn að stefna að þessu síðan ég var sex ára; þetta hefur verið á listanum í 22 ár!“ sagði Einar glaður i bragði við Akureyri.net. Faðir hans, Eyþór Pétursson, varð glímukóngur Íslands tvisvar, 1983 og 1987, og Einar dró ekki dul á það að næsta markmið væri að jafna þann árangur föðurins.

Til gamans má geta þess að Pétur, bróðir Einars, varð glímukóngur hvorki meira né minna en níu sinnum, á árunum 2004 til 2014. Hann hefur verið girtur Grettisbeltinu næst oftast allra, aðeins Ármann J. Lárusson er sigursælli, hann varð glímukóngur 15 sinnum, fyrst 1952 og síðan árlega frá 1954 til 1967.

Kristín Embla Guðjónsdóttir og Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir, Glímufélagi Dalamanna, glíma í gær. Í baksýn eru Jón Ívarsson, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri, heiðursgestur á Íslandsglímunni, og Margrét Rún Rúnarsdóttir, formaður Glímusambands Íslands.

Einar býr í Reyjavík en keppir „að sjálfsögðu“ fyrir Mývetning sem er innan Héraðssambands Þingeyinga, HSÞ. „Ég er eini glímumaðurinn í allri Þingeyjarsyslu. Það þýðir ekki að búa þar og glíma við engan,“ sagði hann. Einar er að ljúka námi í rafvirkun og æfir með KR-ingum.

Kristín Embla Guðjónsdóttir varð glímudrottning annað árið í röð og í þriðja sinn. „Það voru fáir keppendur en mjög skemmtileg keppni samt,“ sagði hún eftir sigurinn í gær. Fleiri tóku þátt í fyrra en meiðsli plaga nokkrar sem voru með þá, að sögn Kristínar Emblu.

Átta keppendur voru í karlaflokki í gær og konurnar voru þrjár.

Úrslit í Freyjuglímunni:

  1. Kristín Embla Guðjónsdóttir, umf. Val Reyðarfirði. Glímudrottning Íslands 2023 
  2. Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir, Glímufélagi Dalamanna
  3. Elín Eik Guðjónsdóttir, umf. Val Reyðarfirði
  • Elín er yngri systir Kristínar glímudrottningar og tók nú þátt í Íslandsglímunni í fyrsta sinn.

Úrslit í keppni karlanna um Grettisbeltið:

  1. Einar Eyþórsson, Mývetningi, Glímukóngur Íslands 2023 
  2. Hákon Gunnarsson, umf. Val Reyðarfirði
  3. Þórður Páll Ólafsson, umf. Val Reyðarfirði

Einar og Kristín Embla fengu einnig fegurðarverðlaun Íslandsglímunnar að þessu sinni.

SPENNANDI RIMMA
Keppni Einars og Hákons var spennandi sem fyrr segir. Um  miðja lokaglímuna, þegar þeir glímdu til þrautar, taldi Hákon sig hafa unnið en áfram var haldið og svo fór að dómarar úrskurðuðu Einar sigurvegara.

_ _ _

Elín Eik Guðjónsdóttir, umf. Val Reyðarfirði, Kristín Embla Guðjónsdóttir, umf. Val Reyðarfirði og Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir, Glímufélagi Dalamanna.

Ásthildur Sturludóttir girðir Einar glímukóng Grettisbeltinu í gær.

Þórður Páll Ólafsson, umf. Val Reyðarfirði, Einar Eyþórsson, Mývetningi, Glímukóngur Íslands 2023 og Hákon Gunnarsson, umf. Val Reyðarfirði.

Íslandsglímunni lauk að vanda með fánahyllingu. Glímudrottning Íslands, Kristín Embla Guðjónsdóttir, sá um hana að þessu sinni.