Fara í efni
Íþróttir

Dyrfjallahlaupið fer fram um aðra helgi

Dyrfjallahlaupið fer fram í sjötta sinn um aðra helgi, laugardaginn 9. júlí. Fjöldi norðanmanna ku taka þátt í þessu krefjandi utanvegarhlaupi á Víknaslóðum, gönguleiðaneti um víkur og firði í nágrenni Borgarfjarðar eystri.

Hægt er að hlaupa tvær leiðir, 12 km með um 700 metra hækkun og svo 24 km leið með 1076 m hækkun. „Þetta eru krefjandi hlaup um vegaslóða og skemmtilega moldarstíga í stórbrotnu landslagi. Hlaupið dregur nafn sitt af Dyrfjöllunum sem setja sterkan svip á Borgarfjörð og það er vel hægt að segja að Dyrfjöllin vaki yfir og verndi þátttakendur í þessari krefjandi áskorun. Ný og glæsilega heimasíða leit dagsins ljós í vor með öllum helstu upplýsingum um hlaupið www.dyrfjallahlaup.is,“ segir í tilkynningu.

Metþátttaka í fyrra

„Í fyrra var slegið þátttökumet þegar rúmlega 400 manns tóku þátt í hlaupinu og var það því stærsti íþróttaviðburður með fullorðnum keppendum í sögu íþróttaviðburða á Austurlandi. Í ár er öllu tjaldað til eftir afléttingu takmarka og nú erum við með 3ja daga dagskrá sem hefst á uppistandi með Ara Eldjárn í Fjarðarborg föstudagskvöldið 8. júlí. 24 km hlaupið er síðan ræst kl 10:00 við Þverá í botni Borgarfjarðar daginn eftir og 12 km leiðin kl 11:00 við Hólaornið á leiðinni út í Hafnarhólma. Endamarkið er rétt fyrir ofan kaffihúsið út við Hafnarhólma og ætti ekki að fara framhjá neinum og næg bílastæði fyrir þá sem vilja koma og fylgjast með," segir í tilkynningunni.

„Eftir hlaupið er boðið upp á Bryggjujóga fyrir þátttakendur (500 krónur fyrir aðra en þátttakendur) á gömlu smábátabryggjunni við Blábjörg Resort hótelið. „Siðan verður hægt að skella sér í veglegt hlaðborð í Fjarðarborg og svo taka þátt í skemmtilegu karíóki með Lóu úr FM Belfast áður en fyrrnefnd hljómsveit treður upp með DJ setti langt fram á nótt. Á sunnudaginn verður svo hægt að skella sér í fjölskyldugöngu kl 12:00 upp á Kúahjalla þar sem er frábært útsýni yfir Borgarfjörðinn og hluta leiðarinnar í Dyrfjallahlaupinu. Síðan verður helgin kórónuð með frisbígolfmóti við Álfaborgina kl 15:00.“

Stefnt er að því í ár að slá þátttökumetið frá því í fyrra. Reiknað er með að uppselt verði í báðir hlaupaleiðirnar „og þeir sem eiga eftir að kaupa sér miða ættu að fara að huga að því þar sem það eru innan við 100 miðar eftir í hvora leið. Miðasala í hlaupið og viðburði því tengdu fer fram á www.tix.is"

Dyrfjallahlaupið er haldið af UMFB (Ungmennafélagi Borgarfjarðar eystri) sem var stofnað árið 1917.