Draumur Þórsara um bikar varð að engu

Draumur Þórsara um bikarmeistaratitil í körfubolta kvenna varð að engu í kvöld þegar Þórsliðið tapaði í undanúrslitum fyrir Grindavík með 12 stiga mun, 92:80. Sömu lið mættust í undanúrslitum í fyrra, þá hafði Þór betur en tapaði úrslitaleiknum fyrir liði Keflavíkur. Njarðvík sigraði Hamar/Þór í fyrri undanúrslitaleiknum í dag og leikur við Grindavík í úrslitum á laugardag.
Þórsarar voru taldir sigurstranglegir í kvöld og þeir byrjuðu betur en þegar fyrsti leikhluti var rúmlega hálfnaður komust Grindvíkingar yfir í fyrsta sinn og þeir héldu sínu striki lengi vel. Leikmenn Þórs náðu ekki að sýna sitt rétta andlit, hvorki í vörn né sókn og það var í raun lán í óláni að Grindvíkingar voru ekki nema 10 stigum yfir í hálfleik, 45:35.
Amandine Justine Toi gerði 19 stig fyrir Þór í kvöld en fór af velli með fimm villur þegar hálfur síðasti leikhluti var eftir. Mynd: Karfan
Allt annað var að sjá Þórsstelpurnar í byrjun seinni hálfleiks; barátta og stemning einkenndi þær enda gerði Þór 13 fyrstu stigin og komst yfir á ný, 54:52. Von um sigur eftir þennan frábæra kafla reyndist hins vegar því miður ekki raunsæ; mikil orka fór í þessar fyrstu mínútur þriðja leikhluta og Þórsliðið missti tökin á ný. Þegar upp var staðið var sigur Grindvíkinga mjög sanngjarn.
Í stuttu máli sagt gekk lítið upp hjá Þórsurum í kvöld. Liðið er þekkt fyrir mikla baráttu og leikgleði en stemningin var minni en oft áður. Enda voru aðstæður ekki ákjósanlegar; segja má að Þórsliðið hafi lent í mótbyr áður en leikurinn hófst því í ljós koma að Hollendingurinn Esther Marjolein Fokke var ekki leikfær og fleiri leikmenn glímdu við einhver meiðsli þótt þeir hafi látið sig hafa það.
Hin 16 ára Emma Karolína Snæbjarnardóttir sækir að vörn Grindvíkinga. Mynd: Karfan
Það var gríðarleg blóðtaka að sú hollenska skyldi ekki geta leikið því hún er einn allra besti leikmaður liðsins; Esther er hávaxin og því mikilvæg undir körfunni en einnig gríðarlega góð skytta. Hún hefur skorað 18 stig að meðaltali í leikjum vetrarins og var því mjög sárt saknað. Þrátt fyrir að hún væri ekki leikfær kom Esther við sögu í örskamma stund snemma í öðrum leikhluta en var aðeins tæpar tvær mínútur innan vallar. Þau Daníel Andri þjálfari vildu greinilega láta á það reyna hvort hún gæti orðið að gagni en svo var því miður ekki.
Amandine Justine Toi gerði 19 stig fyrir Þór í kvöld en fékk fimmtu villuna þegar fimm mín. voru eftir og varð að yfirgefa völlinn. Þá munaði átta stigum sem hefði ekki verið ómögulegt verkefni hefði hennar notað við. Natalia Lalic gerði 18 stig en Maddie Sutton stóð upp úr í Þórsliðinu eins og svo oft áður; tölfræði hennar var mögnuð en það er reyndar hætt að koma á óvart þegar þessi frábæri leikmaður á í hlut! Maddie gerði 19 stig, tók 16 fráköst og átti 15 stoðsendingar.
Esther Marjolein Fokke, í bláu treyjunni, hvatti samherja sína til dáða í kvöld. Hún lék aðeins í tæpar tvær mínútur og var mjög sárt saknað. Mynd: Karfan
- Grindavík - Þór (22-18) (30-28) 45-35 (11-18) (29-21) 92-80
Tölfræði leiksins
Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:
- Amandine Toi 19 - 3 - 3
- Maddie Sutton 19 - 16 - 15 - 35 framlagsstig
- Esther Fokke 0 - 0 - 0
- Eva Wium Elíasdóttir 10 - 3 - 3
- Emma Karólína Snæbjarnardóttir 12 - 3 - 0
- Natalia Lalic 18 -4 - 1
- Hanna Gróa Halldórsdóttir 2 - 1 - 1
- Adda Sigríður Ásmundsdóttir 0 - 0 - 0
- Katrín Eva Óladóttir 0 - 1 - 0
Daníel Andri Halldórsson þjálfari Þórs og leikmenn hans í kvöld. Mynd: Karfan