Draumabyrjun Þórs í hörkuleik
Þórsarar fengu óskabyrjun í Lengjudeildinni í knattspyrnu í kvöld þegar þeir sigruðu Kórdrengi 1:0 í Boganum í skemmtilegum hörkuleik.
Það var Harley Willard sem gerði eina markið á 88. mín. Jewook Woo átti frábæra sendingu inn fyrir vörnina, Willard lék á markvörðinn og skoraði úr mjög þröngu færi. Afar vel gert hjá þeim félögum. Kórdrengir biðluðu til aðstoðardómarans um að lyfta flagginu en hann varð ekki við því; taldi Willard ekki hafa verið í rangstöðu þegar boltanum var spyrnt og það virtist rétt mat.
Hálfgerður sviðsskrekkur virtist í Þórsurum til að byrja með. Gestirnir voru sterkari framan af leik en svo jafnaðist viðureignin og úr varð hörkuleikur. Ekki var mikið um dauðafæri en bæði liði fengu þó fín tækifæri til að skora.
Kórdrengir eru með gott lið, flestir leikmenn reyndir og líkamlega sterkir og gaman að sjá Þórsara eiga í fullu tré við þá og rúmlega það, eftir upphafsmínúturnar. Þórsliðið er mjög breytt síðan í fyrra og þrír strákar í byrjunarliðinu eru fæddir 2004; Aron Ingi Magnússon, Kristófer Kristjánsson og Bjarni Guðjón Brynjólfsson, og stóðu sig prýðilega eins og liðið í heild. Þórsarar reyna að halda boltanum sem mest, strákarnir eru yfirvegaðir og þolinmóðir og fróðlegt verður að fylgjast með þeim í sumar.
Þrír Þórsarar eru í öftustu varnarlínu, í dag þeir Bjarki Þór, Birgir Ómar og Elvar. Þar fyrir framan voru Orri Sigurjónsson og Nikola Kristinn, Aron Ingi vinstra megin og Kristófer á hægri vængnum, Bjarni Guðjón fremstur á miðjunni og þeir Fannar Daði Malmquist og Harley Willard fremstir.
Fannar Daði meiddist og varð að fara af velli eftir aðeins 20 mínútur. Hann virtist festa takkana í þurru grasinu og meiðast á hné en ekki er vitað hve alvarlegt málið er. Einn Kórdrengja, Daði Bergsson, meiddist einnig á hné af sömu orsökum að því er virtist. Vonandi sleppa þeir betur en óttast var í kvöld.
Suður-Kóreumaðurinn Jewook Woo leysti Fannar Daða af hólmi og það var hann sem lagði upp markið fyrir Harley Willard undir lokin sem fyrr segir.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna