Fara í efni
Íþróttir

Dramatískt sigurmark Dags Árna með U17

Frá vinstri: Heimir Örn Árnason þjálfari, Jens Bragi Bergþórsson, Óskar Þórarinsson, Magnús Dagur Jónatansson, Hugi Elmarsson og Dagur Árni Heimisson. Ljósmynd: Guðmundur Svansson

Hinn ungi og bráðefnilegi leikmaður handknattleiksliðs KA, Dagur Árni Heimisson, skoraði lokamark gegn Norðmönnum í 32-31 sigri U17 landsliðs Íslands á mjög svo dramatískum lokasekúndum í lokaleik liðsins á Ólympíuhátíð æskunnar í Maribor í Slóveníu í morgun. Norðmenn höfðu jafnað í 31-31 þegar sex sekúndur voru eftir, íslenska liðið tók leikhlé og að því búnu brunaði Dagur Árni upp völlinn með boltann og skoraði. 

Dagur Árni er ekki eini Akureyringurinn í hópnum því faðir hans, Heimir Örn Árnason er annar þjálfara liðsins, en hinn þjálfarinn er Stefán Árnason, fyrrum þjálfari hjá KA. Auk Dags Árna eru svo fimm aðrir KA-drengir í liðinu, þeir Aron Daði Stefánsson, Jens Bragi Bergþórsson, Óskar Þórarinsson, Magnús Dagur Jónatansson og Hugi Elmarsson. 

Íslenska liðið vann fjóra leiki af fimm á mótinu, tapaði aðeins gegn því þýska, og endaði í 5. sæti mótsins.

Nánar er fjallað um sigurinn og mótið í frétt á handboltavef Íslands, handbolti.is.