Dönsk skytta til liðs við KA/Þór
Dönsk skytta, hin 19 ára Ida Hoberg, samdi í dag við handboltalið KA/Þórs til loka keppnistímabilsins. Þetta kemur fram á vef KA í dag. Ida kemur frá liði Randers HK í Danmörku þar sem hún hefur leikið undanfarin þrjú ár. Áður var hún hjá Viborg HK og lék með yngri flokkum félagsins.
„Ida er 19 ára gömul vinstri skytta og leikstjórnandi en hefur þrátt fyrir ungan aldur mikla reynslu af meistaraflokksbolta en auk þess að spila með liði Randers hefur hún einnig stundað þjálfun hjá félaginu. Var hún hugsuð sem framtíðarleikmaður hjá Randers en liðið lenti í miklum fjárhagsvandræðum og í kjölfarið stakk stjórn KA/Þórs á tækifærið að fá Idu norður,“ segir á heimasíðu KA í dag.
„Hún er sterkur leikmaður sem nýtir hraða og styrk sinn vel bæði í vörn og sókn. Við erum afar spennt fyrir komu hennar norður en í samtali við heimasíðuna sagði Ida að hún væri spennt að koma til liðsins og prófa nýjar aðstæður. Þá byggir hún sjálf leik sinn á baráttugleði, vilja og stemningu sem er nákvæmlega það sem KA/Þór stendur fyrir og komið liði okkar á stall meðal þeirra bestu í efstudeild Íslands.“