„Dómaramálin eru olnbogabarn“
Umræða um dómgæslu í hinum ýmsu íþróttagreinum hefur verið áberandi, meðal annars út frá neikvæðu starfsumhverfi og vandkvæðum við að fá fólk í þessi störf. Akureyri.net lék forvitni á að vita hvernig staðan í dómaramálum í knattspyrnu væri á Akureyri og Norðurlandi, hvernig félögin hérna stæðu sig í að fá fólk í þessi störf.
Þóroddur Hjaltalín er Akureyringum að góðu kunnur, starfaði um árabil sem dómari hérlendis og sem alþjóðadómari. Hann var um tíma formaður dómaranefndar KSÍ og sat sem slíkur í varastjórn sambandsins í tvö ár og svo bráðabirgðastjórn í nokkra mánuði til viðbótar. Á síðastliðnu ári var hann ráðinn í tímabundið starf hjá KSÍ frá 1. mars til 1. september – tók sér þá leyfi frá störfum sínum fyrir VÍS. Verkefnið var móta framtíðarsýn í dómaramálum í samræmi við stefnumótunarvinnu UEFA. Hann skilaði af sér skýrslu og lagði þar meðal annars áherslu á að KSÍ þyrfti að ráða starfsmann í slíkt starf til framtíðar. Honum var síðan í framhaldinu boðið það starf í nóvember og hóf aftur störf hjá KSÍ 1. janúar 2023. Þessu starfi sinnir hann að hluta héðan að norðan, en dvelur 1-2 vikur í mánuði syðra og vinnur þaðan. Eðli málsins samkvæmt fylgja starfinu líka mikil ferðalög.
Rautt! Leikmenn Grindavíkur voru „ekki alveg“ sammála Sigurði H. Þrastarsyni þegar hann rak einn þeirra út af á Þórsvellinum í fyrrasumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Núna eru sex virkir landsdómarar í knattspyrnu á Norðurlandi og 25 virkir dómarar með héraðsdómara- eða unglingadómararéttindi. „Á Norðurlandi er starfrækt Knattspyrnudómarafélag Norðurlands (KDN) sem er mjög virkt og heldur vel utan um alla starfandi dómara. Þetta er mjög skemmtilegur félagsskapur þar sem mikið er gert fyrir utan það að dæma fótbolta. Haldnar eru grillveislur og ýmiss konar viðburðir til þess að þétta raðirnar og farið saman í utanlandsferðir. KDN tekur vel á móti öllum nýliðum og aðstoðar þá við að komast af stað í dómgæslunni,“ segir Þóroddur um stöðuna hér fyrir norðan.
Slæm staða alls staðar
„Staðan er eiginlega nokkuð slæm alls staðar, held ég að ég geti sagt,“ svarar Þóroddur. Hann segir dómurum hafa fækkað mjög eftir að heimsfaraldurinn reið hér yfir. Þessi fækkun hefur að vísu átt sér stað í allri Evrópu. „Bæði misstum við út virka dómara sem einhverra hluta vegna skiluðu sér ekki til baka. Við erum ekki búin að greina hvað það var, en aðallega var það kannski að við gátum ekki haldið námskeiðin okkar. Okkur gekk mjög illa með það. Við erum hins vegar ákveðin í því að ná vopnum okkar aftur en þá verðum við að fá félögin í lið með okkur því innan þeirra er mannauðurinn.“
Mark! Erlendur Eiríksson, einn reyndasti knattspyrnudómari landsins, gefur merki um að Nökkvi Þeyr Þórisson hafi skorað gegn Víkingum í fyrrasumar. Það var 17. og síðasta mark Nökkva fyrir KA áður en hann hélt út í atvinnumennsku. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Hann segir nauðsynlegt að halda dómaranámskeið á staðnum, ekki á netinu. Heimsfaraldurinn hafi hins vegar sett stórt strik í reikninginn varðandi námskeiðahald. „Við gátum auðvitað ekki farið inn í félögin og þar af leiðandi datt nýliðunin þessi tvö ár sem þetta var hvað verst bara algjörlega niður. Við erum í dag með í kringum 580 virka dómara hjá Knattspyrnusambandinu. Við vorum með rúmlega 800 fyrir covid.“ Aðspurður um hvaða fjölda hann myndi vilja hafa þannig að staðan væri mjög góð segir hann að sú tala sé á milli 850 og 930. „Þá værum við í góðum málum.“
En svo er leikjum líka að fjölga.
„Já, það er dálítið fyndið með það að það fjölgar alltaf leikjunum en gleymist að það þarf einhverja til að dæma þessa leiki. Það sama á við hérna fyrir norðan, ástandið er engan veginn nógu gott því auðvitað fjölgar leikjum hérna á svæðinu líka. Við erum að reyna að fá fleiri inn í þetta með öllum ómögulegum og mögulegum aðferðum, en hlutverk mitt núna fram á vorið verður fyrst og fremst að fjölga dómurum alls staðar og ekki síst hérna fyrir norðan og austan,“ segir Þóroddur.
Hvernig hefur aðsóknin á dómaranámskeið verið hér á Akureyri?
„Hún var ágæt í fyrra, en mjög slæm núna. En það þýðir bara að við þurfum að auglýsa aftur og halda áfram. Við gefumst ekkert upp. Við þurfum bara að halda áfram að berjast í þessu, en óskastaðan væri kannski að félögin væru aðeins virkari í að auglýsa þessi námskeið og reyna að koma einhverjum inn á námskeiðin, en við höldum alltaf áfram að halda þau.“
Jess! Þórður Þorsteinn Þórðarson blæs til leiksloka og Hulda Björk Hannesdóttir og Harpa Jóhannesdóttir, leikmenn Þórs/KA, fagna mikilvægum sigi á Þrótti á Íslandsmótinu í fyrrasumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Aðspurður telur Þóroddur ekki vænlegt til árangurs til að fjölga dómurum að skylda alla leikmenn sem koma til dæmis upp í 3. flokk til að sækja dómaranámskeið. Þar sé kannski takmarkaður áhugi því „dómaranámskeið, þetta er ekki sexí.“ Hann segir meiru skila að halda námskeið fyrir áhugasama sem skrá sig sérstaklega á dómaranámskeiðin, jafnvel þótt ekki komi nema fimm á námskeiðið og það skili mögulega tveimur dómurum. „En við erum samt alltaf tilbúnir að koma inn í félögin og halda þessi námskeið og þá kannski gerum við þetta þannig að við erum að reyna að fá þau til að hugsa aðeins um lögin, frekar en endilega að þau ætli sér að verða dómarar, það skilar sér lítið í gegnum þessi námskeið.“
Umbun fyrir að standa vel að dómaramálum?
Er eitthvað í félagakerfinu eða lögum og reglum KSÍ sem þyrfti að breyta til að þvinga fram eða ná fram eðlilegri og jafnari nýliðun?
„Já, það eru ýmis tækifæri til staðar og það er í lögum KSÍ að fyrir hvert lið sem þú sendir á Íslandsmót þarftu að vera með einn virkan dómara. Auðvitað er þetta ógerningur hjá sumum félögum og við gerum okkur grein fyrir því. Það hefur ýmislegt verið rætt. Það hefur til dæmis verið rætt einhvers konar dómaragjald sem ætti að leggja á félögin. Við getum sagt að það heiti keppnisgjald, sem væri einhver x tala og svo væri hægt að setja upp svipað kerfi og er í kringum mannvirkjasjóðinn þar sem þú ferð í gegnum skorkort,“ segir Þóroddur. Fullt keppnisgjald væri þá ákveðin upphæð og síðan gætu félögin fengið afslátt af því eftir því sem þau uppfylla ákveðin skilyrði, þar á meðal í dómaramálunum. „Til dæmis ef þú ert með ákveðinn fjölda dómara þá myndirðu tikka í það box og þá væri kominn hvati til að vera með dómara. Það er auðvitað það sem við verðum að hugsa líka, að það sé hvati.“
Þóroddur segir dómaramálin vera hálfgerð olnbogabörn í nánast öllum félögum. Frá því séu þó undantekningar og því beri að fagna. Þessu þurfi einhvern veginn að breyta. „Við ætlum okkur núna að fara í þéttara samstarf með félögunum þar sem við gerum dómarastjóra félaganna virkari og verðum með aukið aðhald. Vegna þess að ég held að það sé líka eitthvað sem vi hjá KSÍ getum bætt, það er meira samstarf við að búa til dómara og aðstoða dómara í þessu starfi.“
Neikvætt umhverfi fælir frá
Hver er helsta hindrunin? Það er ekki beinlínis slegist um að komast í þetta starf og það hefur væntanlega ekkert batnað með árunum?
„Nei, alls ekki. Ég er í starfshópi hjá KSÍ þar sem við erum að vinna í því að gera umhverfið jákvæðara. Það er gríðarlega mikilvægt að við komum því verkefni áfram. Við erum að hitta fjölmiðlafólk, stjórnarfólk, þjálfara, leikmenn, erum bara að viða að okkur alls konar upplýsingum, hvernig við getum sem heild gert þetta jákvæðara. Eins og staðan er í dag er umhverfið bara svo neikvætt. Það vill enginn koma í þetta, segi kannski ekki enginn, en fáir sem gefa sig í þetta vegna þess að umhverfið er bara svo ofboðslega neikvætt og það eru svo margar hindranir á leiðinni að það eru hreinlega mjög margir sem fælast frá og hætta.“
Bjarki Þór Viðarsson og Alexander Már Þorláksson, leikmenn Þórs, þakka dómaratríóinu fyrir leikinn eftir viðureign við Aftureldingu í fyrrasumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Þýðing á námsefni skilaði nýjum dómurum
Þau sem fylgjast með knattspyrnu og skoða leikskýrslur hafa væntanlega tekið eftir því að erlendum nöfnum hefur fjölgað á meðal dómara. Er það meðvituð þróun hjá sambandinu?
„Já, núna, en var það ekki þegar við fórum að fá fyrstu útlendingana inn til okkar. Við höfum til dæmis verið með tvo Pólverja í landsdómarahópnum okkar og einn frá Írak. Þeir hafa reynst okkur frábærlega. Bæði hafa þeir staðið sig vel, eru bara mjög góðir í faginu, miklir fagmenn, og hafa gefið sig 100% í þetta.“
Þóroddur þýddi allt námsefni og prófin hjá sambandinu yfir á ensku. Hann segir að það hafi skilað árangri, sérstaklega á landsbyggðinni, minni stöðunum. Þar hafi komið inn nýir dómarar sem hafi reynst vel. Þá var einnig tekið upp samstarf við áður nefnda Pólverja, Þóroddur fundaði með þeim og velti upp hvort það myndi skila einhverju ef námsefnið yrði þýtt á pólsku því hér búi fjölmargir Pólverjar og margir með mikinn áhuga á fótbolta. Spurningin var hvort þeir hefðu trú á að hér væru fleiri Pólverjar sem hefðu áhuga og jafnvel reynslu frá heimalandinu, en væru kannski tregir til að mæta á dómaranámskeið af því að það er allt á íslensku. Þeir töldu svo vera.
„Það er svo auðvitað líka það sem við höfum verið að benda fólki á, að leikmenn sem eru að hætta eða foreldrar sem hafa mikinn áhuga og vilja fylgjast með og starfa – þetta er einn vettvangur. Við erum ekki alltaf að leita að næsta efstudeildardómara, en við þurfum líka fjölda dómara til að taka yngri flokkana og neðri deildirnar. Þetta er einn möguleikinn til að vera virkur í þessari frábæru íþrótt,“ segir Þóroddur Hjaltalín, starfsmaður á knattspyrnusviði KSÍ með dómaramálin sem aðalverkefni.