Fara í efni
Íþróttir

Djurgården hefur áhuga á Elvari Mána

Elvar Máni Guðmundsson og Arnar Grétarsson, þjálfari meistaraflokks KA, þegar Elvar skrifaði undir fyrsta samninginn við KA fyrir réttu ári. Mynd af vef KA.

Sænska úrvalsdeildarfélagið Djurgårdens IF hefur sýnt áhuga á að semja við knattspyrnumanninn unga í KA, Elvar Mána Guðmundsson. Félagið bauð Elvari Mána til Svíþjóðar til að skoða aðstæður, þar hefur hann æft með liði 19 ára og yngri þessa viku en kemur heim um helgina.

Elvar Máni er fæddur í janúar 2006 og varð því 16 ára í síðasta mánuði. Hann er enn í 10. bekk grunnskóla. Sænska liðið hefur fylgst með Elvari Mána í nokkurn tíma, skv. heimildum Akureyri.net, enda leikmaðurinn mjög efnilegur og er fyrirliði landsliðs 16 ára og yngri. 

Fyrir réttu ári, í janúar 2021, skrifaði Elvar Máni undir fyrsta leikmannasamninginn við knattspyrnudeild KA, til fjögurra ára. Hann kom við sögu í einum leik KA í Pepsi Max deild Íslandsmótsins í fyrrasumar; kom af varamannabekknum og lék í nokkrar mínútur í 3:0 sigri á Leikni á Dalvíkurvelli 12. maí.

Djurgårdens IF er eitt stærsta félag Svíþjóðar og varð í þriðja sæti í deild þeirra bestu, Allsvenskan, á síðasta ári.