Dagur semur við Stjörnuna til vors 2023
Dagur Gautason, handboltamaður úr KA, sem gekk til liðs við Stjörnuna fyrir yfirstandandi keppnistímabil, hefur framlengt samning sinn við Garðabæjarfélagið til vors 2023. Stjarnan tilkynnti þetta síðdegis.
Stjarnan segir á Facebook síðu sinni í dag: „Dagur hefur tekið skrefið frá því að vera einn efnilegasti leikmaður deildarinnar í að vera einn besti hornamaður landsins. Hann var m.a. valinn „Besti ungi leikmaður Olísdeildarinnar“ fyrri hluta tímabilsins 2019-2020 og ekki er langt í að hann bæti fleiri persónulegum verðlaunum í safnið.“
Dagur verður 21 árs á þessu ári. Hann hefur leikið 67 meistaraflokksleiki á ferlinum og skorað í þeim 260 mörk og var markahæstur hjá KA á síðasta tímabili. Hann hefur spilað í öllum yngri landsliðum Íslands og vann meðal annars Silfur á EM u-18 ára og var valinn í Úrvalslið mótsins.
„Það er alltaf gaman að sjá Dag spila handbolta, kraftur og snerpa einkenna hans leik. Það verður spennandi að sjá Dag og liðsfélaga á gólfinu í TM höllinni þegar Stjarnan spilar sinn fyrsta leik á árinu, 25. janúar næstkomandi,“ segir á síðu Stjörnunnar.