Fara í efni
Íþróttir

Dagur semur við Stjörnuna til vors 2023

Dagur Gautason og Andri Snær Stefánsson fagna sigurmarki Dags á lokasekúndunni gegn ÍBV fyrir nokkrum misserum - og Dagur í Stjörnubúningnum.

Dagur Gautason, handboltamaður úr KA, sem gekk til liðs við Stjörnuna fyrir yfirstandandi keppnistímabil, hefur framlengt samning sinn við Garðabæjarfélagið til vors 2023. Stjarnan tilkynnti þetta síðdegis.

Stjarnan segir á Facebook síðu sinni í dag: „Dagur hefur tekið skrefið frá því að vera einn efnilegasti leikmaður deildarinnar í að vera einn besti hornamaður landsins. Hann var m.a. valinn „Besti ungi leikmaður Olísdeildarinnar“ fyrri hluta tímabilsins 2019-2020 og ekki er langt í að hann bæti fleiri persónulegum verðlaunum í safnið.“

Dagur verður 21 árs á þessu ári. Hann hefur leikið 67 meistaraflokksleiki á ferlinum og skorað í þeim 260 mörk og var markahæstur hjá KA á síðasta tímabili. Hann hefur spilað í öllum yngri landsliðum Íslands og vann meðal annars Silfur á EM u-18 ára og var valinn í Úrvalslið mótsins.

„Það er alltaf gaman að sjá Dag spila handbolta, kraftur og snerpa einkenna hans leik. Það verður spennandi að sjá Dag og liðsfélaga á gólfinu í TM höllinni þegar Stjarnan spilar sinn fyrsta leik á árinu, 25. janúar næstkomandi,“ segir á síðu Stjörnunnar.