Dagur frábær og gamli, góði Ólafur snéri aftur
KA-menn unnu lífsnauðsynlegan sigur á liði Harðar frá Ísafirði í dag, 32:31, í Olís deildinni í handbolta, efstu deild Íslandsmótsins. Leikið var í KA-heimilinu.
Óhætt er að segja að tveir menn hafi farið með aðalhlutverkin í KA-liðinu í dag, hornamaðurinn Dagur Gautason gerði hvorki fleiri né færri en 13 mörk – úr jafn mörgum skotum – og Ólafur Gústafsson, sem steig á svið í fyrsta skipti í vetur, gerði 11 mörk, átti fjórar stoðsendingar og lék vel í vörn.
KA hafði frumkvæðið framan af og var sex mörkum yfir um miðjan fyrri hálfleikinn, en fjölþjóðaliðið að vestan steig þá bensíngjöfina í botn og hafði eins marks forskot í hálfleik, 17:16.
Seinni hálfleikurinn þróaðist ekki ósvipað; KA var fimm mörkum yfir um miðjan hálfleikinn en náði aldrei að hrista gestina af sér. Hörður minnkaði muninn í eitt mark, 30:29, þegar þrjár mínútur voru eftir en KA-strákarnir stóðust prófið og tryggðu sér bæði stigin.
Eftir sigurinn er KA enn í 10. sæti en komið með 11 stig, jafn mörg og Grótta. Átta lið komast í úrslitakeppnina; næstu lið fyrir ofan eru Haukar og Selfoss með 13 stig, ÍBV og Stjarnan með 14 og Fram er með 15 stig í fjórða sæti. KA á eftir átta leiki í deildinni.
Í tveimur neðstu sætunum eru ÍR með 5 stig og Hörður með 1.
Mörk KA: Dagur Gautason 13, Ólafur Gústafsson 11 (2 víti), Allan Nordberg 4, Gauti Gunnarsson 3, Patrekur Stefánsson 1.
Varin Skot: Nicholas Satchwell 8, Bruno Bernat 7.
Mörk Harðar: Leó Renaud-David 7, Guilherme Andrade 5, Suguru Hikawa 3, Mikel Amilibia Aristi 3, José Esteves Neto 3, Guntis Pilpuks 3, Óli Björn Vilhjálmsson 2, Jón Ómar Gíslason 2, Sudario Eidur Carneiro 1, Victor Iturrino 1, Jhonatan Santos 1.
Varin skot: Rolands Lebedevs 5, Emannuel Evangelista 2.