Fara í efni
Íþróttir

Dagur frábær og gamli, góði Ólafur snéri aftur

Ólafur Gústafsson hleypir af í dag og boltinn söng í netinu stuttu síðar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn unnu lífsnauðsynlegan sigur á liði Harðar frá Ísafirði í dag, 32:31, í Olís deildinni í handbolta, efstu deild Íslandsmótsins. Leikið var í KA-heimilinu.

Óhætt er að segja að tveir menn hafi farið með aðalhlutverkin í KA-liðinu í dag, hornamaðurinn Dagur Gautason gerði hvorki fleiri né færri en 13 mörk – úr jafn mörgum skotum – og Ólafur Gústafsson, sem steig á svið í fyrsta skipti í vetur, gerði 11 mörk, átti fjórar stoðsendingar og lék vel í vörn.

KA hafði frumkvæðið framan af og var sex mörkum yfir um miðjan fyrri hálfleikinn, en fjölþjóðaliðið að vestan steig þá bensíngjöfina í botn og hafði eins marks forskot í hálfleik, 17:16.

Seinni hálfleikurinn þróaðist ekki ósvipað; KA var fimm mörkum yfir um miðjan hálfleikinn en náði aldrei að hrista gestina af sér. Hörður minnkaði muninn í eitt mark, 30:29, þegar þrjár mínútur voru eftir en KA-strákarnir stóðust prófið og tryggðu sér bæði stigin.

Eftir sigurinn er KA enn í 10. sæti en komið með 11 stig, jafn mörg og Grótta. Átta lið komast í úrslitakeppnina; næstu lið fyrir ofan eru Haukar og Selfoss með 13 stig, ÍBV og Stjarnan með 14 og Fram er með 15 stig í fjórða sæti. KA á eftir átta leiki í deildinni.

Í tveimur neðstu sætunum eru ÍR með 5 stig og Hörður með 1.

Mörk KA: Dag­ur Gauta­son 13, Ólaf­ur Gúst­afs­son 11 (2 víti), All­an Nor­d­berg 4, Gauti Gunn­ars­son 3, Pat­rek­ur Stef­áns­son 1.

Var­in Skot: Nicholas Satchwell 8, Bruno Bernat 7.

Mörk Harðar: Leó Renaud-Dav­id 7, Guil­herme Andra­de 5, Sug­uru Hikawa 3, Mikel Amili­bia Aristi 3, José Esteves Neto 3, Gunt­is Pilpuks 3, Óli Björn Vil­hjálmsson 2, Jón Ómar Gísla­son 2, Su­dario Eidur Car­neiro 1, Victor It­urr­ino 1, Jhonatan Santos 1.

Var­in skot: Rolands Le­bedevs 5, Emannu­el Evang­el­ista 2.