Byrlega blés fyrir siglingafólkið
Fyrsta keppnisdegi af þremur er lokið á alþjóðlega siglingamótinu, Rs Aero Arctic, á Pollinum við Akureyri. Keppni hófst um hádegi og siglingakapparnir fara aftur af stað um hádegisbil á morgun. Keppni lýkur á miðvikudag.
Þátttakendur eru um 20, nokkrir Íslendingar – þar af þrír heimamenn – en liðlega helmingur kom erlendis frá, siglingakappar búsettir bæði vestan hafs og austan.
„Sigldar voru sjö umferðir og þetta skotgekk, vindurinn var mjög góður,“ sagði Tryggvi Heimisson, formaður siglingaklúbbsins Nökkva, við Akureyri.net. Gestirnir hafa margir hverjir verið í hitabylgju á heimaslóðum síðustu vikur, hér er kaldara þótt veðrið sé bærilegt; „sólin hjálpaði til!“ sagði Tryggvi léttur eftir að keppni lauk. „Það var toppveður í dag fyrir siglingar.“
Akureyri.net rakst á færslu á netinu frá einum þátttakanda síðan í gær þegar keppendur æfðu sig á Pollinum. Dásamaði hann aðstæður, veður, vind og umhverfið allt, og sagðist ekki áður hafa lent í því að bæði hvalir og selir hafi gert vart við sig við hlið klúbbhúss þegar undirbúningur stóð sem hæst!