Fara í efni
Íþróttir

Brynjar mættur til Lecce – allt klárt

Klappað og klárt! Bjarni Áskelsson, Brynjar Ingi Bjarnason, Pantaleo Corvino, hæstráðandi hjá Lecce, og Svíinn Anders Carlsson, umboðsmaður Brynjars hjá Nordic Sky umboðsskrifstofunni.

Knattspyrnumaðurinn Brynjar Ingi Bjarnason úr KA, kom til borgarinnar Lecce á Ítalíu í morgun ásamt föður sínum, Bjarna Áskelssyni. Feðgarnir flugu frá Íslandi í gær. Miðvörðurinn ungi fór í læknisskoðun hjá félaginu í dag og skrifaði að því loknu formlega undir sammning við Lecce. Samningur hans við ítalska félagið er til þriggja ára með möguleika á tveimur til viðbótar að þeim tíma liðnum.

Leikmenn mæta til æfinga í heimaborginni á morgun og í næstu vikur verður haldið í viku æfingaferð norður í land.

Fyrsti „alvöru“ leikur Lecce á keppnistímabilinu verður 15. ágúst gegn Parma í bikarkeppninni. Goðsögnin Gianluigi Buffon, markvörður Juventus og landsliðsins til fjölda ára, samdi í sumar við Parma, þar sem hann hóf ferilinn á sínum tíma. Liðin leika bæði í B-deildinni í vetur. Ekki er sem sagt loku fyrir það skotið að Bjarnason og Buffon mætist í fyrsta leik!

Brynjar Ingi á flugvellinum í Brindisi í morgun.