Stefnum að sjálfsögðu á alla titlana aftur
KA er á toppi úrvalsdeildar kvenna í blaki eftir tvo sigra um helgina, gegn Aftureldingu og HK á heimavelli. Þetta voru síðustu leikir KA-liðsins í deildinni í bili, átta liða úrslit bikarkeppninnar fara fram innan skamms og svo tekur við keppni fjögurra efstu um deildarmeistaratitilinn.
KA vann HK 3:1 á laugardaginn, 25/23, 25/22, 25/27, 25/21 og Aftureldingu 3:0 á sunnudaginn, 25/13, 26/24, 25/22. KA er með 28 stig og allar líkur eru á að lið Álftaness nái sömu stigatölu; liðið á eftir að mæta HK sem er næst neðst og fær þrjú stig með því að vinna í þremur hrinum. Afturelding er í þriðja sæti. Þessi þrjú lið heyja svo baráttu um deildarmeistaratitilinn og verða án efa í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn þegar þar að kemur í vor.
Mjög jafnt
„Deildin hefur aldrei verið eins jöfn og í vetur, síðan ég man eftir mér,“ segir segir Jóna Margrét Arnarsdóttir, einn besti leikmaður KA, við Akureyri.net.
„Öll liðin geta náð stigum hvert af öðru og þegar efstu fjögur liðin mætast virðist það eiginlega bara vera dagsformið sem ræður úrslitum – að minnsta kosti enn sem komið er,“ segir uppspilarinn ungi.
„Við misstum tvo af bestu sóknarmönnunum okkar í haust; Tea Andric, einn stigahæsti leikmaður deildarinnar, fór til Svíþjóðar og Paula [Del Olmo Gomez] var ólétt, en við erum samt með tiltölulega mikla breidd því í staðinn fengum við systurnar Helenu Kristínu Gunnarsdóttur, sem var í KA fyrir nokkrum árum, og Heiðu Elísabetu Gunnarsdóttur, sem kom frá Þrótti Neskaupstað,“ segir Jóna Margrét.
Jóna Margrét Arnarsdóttir er snjall uppspilari og einn besti leikmaður KA.
Þess má geta að Paula tók þátt í leikjunum tveimur um helgina; lék þá fyrstu mínútur sínar í vetur sem eru gleðifregnir fyrir KA-menn því hún er einn albesti leikmaður deildarinnar.
Gullregn í fyrra
KA-stelpurnar sönkuðu að sér gulli í fyrravetur. Unnu allt sem hægt var að vinna; urðu deildarmeistarar, bikarmeistarar og Íslandsmeistarar og það er engin launung hvert markmiðið er í ár. „Það er að sjálfsögðu markmið okkar, að vinna alla titlana aftur,“ sagði Jóna Margrét.
Hún nefnir hve miklu skipti að liðsheildin sé góð; ekki sé nóg að einhverjir leikmenn blómstri heldur verði heildin að virka. „Það er mjög mikill agi hjá okkur. Til dæmis er ekki í boði að sleppa æfingu nema með góðri afsökun,“ segir hún, spurð hvað skapi svona góða liðsheild, fyrir utan það að vera með marga góða leikmenn. „Við berum líka viðingu hver fyrir annarri og leggjum okkur allar fram – alltaf. Það skilar sér. Svo erum við allrar rosalega góðar vinkonur.“
Bikarkeppnin
Átta liða úrslit bikarkeppninnar fara fram innan skamms og drátturinn var á þá lund að aðeins tvö af fjórum bestu liðum landsins komast í undanúrslit. „Það hittist þannig á að við drógumst á móti Álftanesi í átta liða úrslitunum og Völsungur leikur við Aftureldingu. Fjögur liðin mætast! Ekki óskastaða, en þannig er að bara. Það var að minnsta kosti heppilegt við fengum heimaleik,“ sagði Jóna Margrét.
Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni.