Fara í efni
Íþróttir

Bjóða upp á fyrirlestra um fjármál í fótbolta

Fræðsludeild Knattspyrnusambands Íslands stendur nú fyrir fyrirlestraröð um fjármál í fótbolta, í samstarfi við Þóri Hákonarson, fyrrverandi framkvæmdastjóra KSÍ, og Björn Berg, deildarstjóra Greiningar Íslandsbanka.

Fyrsti fyrirlesturinn var haldinn í síðustu viku og mæltist vel fyrir en vegna umfangs efnis og uppsetningar á fyrirlestrunum henta þeir illa í fjarfundabúnaði. Fræðsludeild hefur því áhuga á að bjóða upp á fyrirlestrana á Akureyri, og yrði þeim þá skipt upp í fjóra hluta á tveimur helgum í mars og apríl. Fyrirkomulagið yrði sem hér segir – en það fer eftir áhuga hvort af þeim verður:

  • Laugardagur 27. mars klukkan 10 til 14: Alþjóðastofnanir, regluverk og mótahald FIFA og UEFA – Fjárhagslegt umhverfi félaganna, Financial fair play, uppeldisbætur/samstöðubætur.
  • Sunnudagur 28. mars klukkan 10 til 14: Rekstrarmódel knattspyrnufélaga, kostun, eignarhald – Sjónvarps- og markaðsréttindi, mismunandi útgáfur og nálgun deilda í Evrópu.
  • Laugardagur 10. apríl klukkan 10 til 14: Veðmálastarfsemi, umfang, veðmálasvind, hagræðing úrslita – Velta og rekstur knattspyrnusambanda og félaga í Evrópu og Íslandi
  • Sunnudagur 11. apríl klukkan 10 til 12: Samantekt.

Allir fyrirlestrar eru með tilvísun til umhverfisins á Íslandi og tekin raunveruleg dæmi. Gjald fyrir alla fyrirlestrana er 10.000 krónur.

Þátttaka á námskeiðinu gefur þjálfurum með KSÍ A, UEFA A eða KSÍ B og UEFA B þjálfararéttindi 10 endurmenntunarstig.

Smelltu hér til að skrá þig á námskeiðið.