Bjarni Guðjón fer til Vals eftir tímabilið
Bjarni Guðjón Brynjólfsson, unglingalandsliðsmaður í knattspyrnu í Þór, hefur samið við Val en leikur með Þór út þessa leiktíð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þór í kvöld.
Akureryri.net greindi frá því í gærkvöldi að Þór hefði samþykkt kauptilboð í Bjarna Guðjón bæði frá KR og Val og boltinn væri hjá leikmanninum. Félagaskiptaglugganum verður lokað í kvöld og Bjarni gerði upp hug sinn í dag, semur við Val en verður lánaður til Þórs fram á haust.
- Frétt gærdagsins: Þór samþykkir tilboð í Bjarna frá Val og KR
Tilkynningin frá knattspyrnudeild Þórs er svona í heild:
Knattspyrnudeild Þórs hefur náð samkomulagi við knattspyrnudeild Vals um félagaskipti Bjarna Guðjóns Brynjólfssonar.
Félagaskiptin ganga í gegn þegar í stað en Bjarni Guðjón verður lánaður til baka og mun klára tímabilið með Þór í Lengjudeildinni.
Bjarni Guðjón er fæddur 2004 og því enn á elsta ári í 2. flokki en hefur verið lykilmaður í liði Þórs undanfarin ár. Hann hefur leikið 62 leiki í deild og bikar fyrir meistaraflokk Þórs og skorað fimmtán mörk eftir að hafa farið upp í gegnum alla yngri flokka félagsins. Bjarni hefur leikið 11 landsleiki fyrir U19 ára landslið Íslands.
Hjá Val hittir Bjarni Guðjón fyrir Þórsarann Birki Heimisson sem hefur leikið með Val undanfarin fjögur ár.
Sveinn Elías Jónsson, formaður knattspyrnudeildar:
Í kvöld varð ljóst að Bjarni Guðjón Brynjólfsson hefur samþykkt að ganga í raðir Vals eftir tímabilið. Þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára gamall, þá er Bjarni á sínu fjórða tímabili í meistaraflokki og hefur hann verið í lykilhlutverki síðustu þrjú ár. Bjarni hefur spilað 62 leiki í deildar- og bikarkeppni og skorað í þeim 15 mörk og eru allar líkur á því að fjölgun verði á báðum tölum annað kvöld þegar Þróttur Reykjavík kemur í heimsókn á VÍS völlinn.
Stuðningsmenn Þórs geta því áfram notið þess að fylgjast með Bjarna í Þórsbúningnum þar sem hann mun klára tímabilið með félaginu og hjálpa því að ná markmiðum sínum.
Félagaskiptin eru að okkar mati viðurkenning á gott uppeldisstarf Þórs en mikill áhugi var á Bjarna enda hefur hann bæði vakið athygli með meistaraflokki Þórs í Lengjudeildinni og með yngri landsliðum.
Knattspyrnudeild Þórs vill að lokum þakka Bjarna kærlega fyrir sitt framlag til félagsins og óskar honum velfarnaðar, gæfu og góðs gengis í framtíðinni.
Bjarni er nú líkt og aðrir leikmenn Þórs að undirbúa sig fyrir leikinn gegn Þrótti sem fram fer á VÍS-vellinum á morgun, miðvikudag klukkan 18:00.