Birkir Heimisson kominn heim í Þór
Knattspyrnumaðurinn Birkir Heimisson er á leið heim til Þórs á ný. Átta ár eru síðan hann fór frá uppeldisfélaginu til Heerenveen í Hollandi, aðeins 16 ára, eftir að hafa tekið þátt í sex leikjum með Þór á Íslandsmótinu. Síðustu fjögur ár hefur Birkir leikið með Val í Reykjavík. Hann er 24 ára. Greint er frá þessu á miðlum Þórs kvöld.
Þar segir:
Knattspyrnudeild Þórs hefur komist að samkomulagi við Val um félagaskipti fyrir Birki Heimisson og hefur Birkir skrifað undir þriggja ára samning við Þór.
Með þessu er Birkir að snúa aftur heim í Þorpið eftir átta ára fjarveru en hann var seldur frá Þór til hollenska úrvalsdeildarliðsins Heerenveen sumarið 2016. Birkir er 24 ára og hefur leikið með Val í efstu deild hér á landi frá árinu 2020.
Birkir hefur leikið 125 leiki hér á landi og skorað þrettán mörk auk þess að hafa leikið 28 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim fimm mörk.
Í leiðtogahlutverk hjá Þór
„Í kvöld náðum við samkomulagi við Val og Birki um að leikmaðurinn snúi aftur heim til Þórsara. Við í stjórn knattspyrnudeildar Þórs erum virkilega stoltir af því að fá Birki aftur heim, hann hefur síðustu fjögur tímabil spilað lykihlutverk með Val í Bestu deild karla og varð m.a. Íslandsmeistari með þeim árið 2020,“ er haft eftir Sveini Elíasi Jónssyni, formanni knattspyrnudeildar Þórs.
„Nú er hins vegar komið að því að hann taki að sér nýtt leiðtogahlutverk hjá sínu uppeldisfélagi. Birki þarf ekki að kynna fyrir neinum Þórsara. Við fengum síðast að njóta krafta hans á vellinum árið 2016, sjálfur var ég í hlutverki fyrirliða inni á vellinum þá og veit því fullvel hvers hann er megnugur og því er ekki að leyna að koma hans ýtir vel undir spenning fyrir komandi sumri.
Ég vil þakka Val fyrir fagleg og góð vinnubrögð í samtali okkar vegna Birkis og býð hann og fjölskylduna innilega velkomin heim í Þorpið!“
Birkir Heimisson í Þórstreyjunni í fyrsta skipti í átta ár. Mynd sem birt var á miðlum Þórs í kvöld.