Bikardraumar: KA í dag en stelpurnar í kvöld
Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs í handbolta, og karlalið KA, verða í eldlínunni í dag í átta liða úrslitum bikarkeppninnar. Báðir leikirnir verða í KA-heimilinu og sæti í fjögurra liða úrslitahelgi í húfi.
Kvennalið KA/Þórs tekur á móti HK, leikurinn átti að hefjast klukkan 14.00 en hefur verið færður til 19.30 vegna færðar og veðurs. Karlaleikurinn fer hins vegar fram á fyrirfram auglýsintum tíma; KA mætir Haukum klukkan 16.00.
KA/Þór er ríkjandi bikarmeistari eftir glæsilegan sigur á Fram úrslitum í haust. Að sjálfsögðu stefna stelpurnar ótrauðar að því að verja titilinn og eru mun sigurstranglegra liðið í dag. Enginn leikur er þó unnin fyrirfram eins og allir íþróttamenn vita mætavel en að óneitanlega eru mjög miklar líkur á að Stelpurnar okkar komist í bikarúrslitahelgina í þriðja skipti á fjórum árum.
KA vann magnaðan sigur á Stjörnunni á útivelli fyrir fáeinum dögum í 16 liða úrslitunum og fær nú topplið Íslandsmótsins, Hauka, í heimsókn. Á heimasíðu KA er rifjað upp að níu ár eru síðan karlalið úr höfuðstað Norðurlands tók þátt í bikarúrslitahelginni en Akureyri – sameiginlegt lið KA og Þórs – tapaði gegn Stjörnunni í undanúrslitunum 2013.
- Á vef KA er minnt á ársmiðar gilda ekki í bikarkeppninni en bent á að í dag verði boðið upp á miðatvennu á 3.000 krónur en stakur miði kostar 2.000 kr. Frítt er inn fyrir 16 ára og yngri.