Bætti 44ra ára gamalt Íslandsmet
Tobías Þórarinn Matharel úr Ungmennafélagi Akureyrar varð á dögunum sexfaldur Íslandsmeistari og bætti svo um betur núna um helgina á Sumarleikum HSÞ þegar hann sló 44ra ára gamalt Íslandsmet í flokki 14 ára pilta í þrístökki.
Tobías er fjölhæfur íþróttamaður og hefur verið sigursæll í sumar, að því er fram kemur í frétt á vef UFA. Hann varð sexfaldur Íslandsmeistari á Meistaramóti Íslands 11-14 ára sem fram fór á Selfossi fyrir tveimur vikum þegar hann sigraði í 80 m grindahlaupi, 300 m grindahlaupi, hástökki, langstökki, þrístökki og spjótkasti.
Á Sumarleikum HSÞ gerði hann sér svo lítið fyrir og bætti 44ra ára gamalt Íslandsmet í sínum aldursflokki sem Ármann Einarsson (ÚÍA) setti árið 1979. Gamla metið var 12,26 metrar, en Tobías bætti það um 41 sentímetra, stökk 12,67 metra. UFA átti um fjörutíu keppendur á Sumarleikunum og unnu þeir til fjölmargra verðlauna.